Innlent

Ráðlagði Ólafi að auglýsa miðborgarstarf

Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ráðningar Jakobs Frímanns Magnússonar í starf framkvæmdastjóra miðborgar. Þar staðfestir hún að hún hafi ráðlagt Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra að auglýsa starf miðborgarstjóra.

Regína segir einnig að þar sem borgarstjóri hafi fremur kosið að fá inn aðila með skömmum fyrirvara, vegna brýnna verkefna í miðborginni, þá hefði hún staðfest að það væri heimild fyrir því að ráða í störf sem væru eitt ár eða skemur.

Ólafur F. Magnússon hefur rætt ráðningu Jakobs víða, þar á meðal í Íslandi í dag og Kastljósi í gær. Þar hefur hann sagt að hann hafi ráðfært sig við skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra og mannauðsstjóra borgarinnar.

Það sama gerði hann á borgarstjórnarfundi á þriðjudag og samkvæmt tilkynningu frá Sigrúnu Elsu Smáradóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sagði hann: „Það var sérstök ábending skrifstofustjórans að hér væri um skammtímaráðningu að ræða og þyrfti ekki að auglýsa hana og hann var hafður með í ráðum frá fyrstu stundu í þessu máli og hefur raunar líka komið að ráðningu verkefnisstjóra inn á skrifstofuna, þar sem ég kom nú minnst að því máli frá upphafi til enda, en treysti mínum skrifstofustjóra og sú staða var ekki auglýst." Í þessum þremur tilvikum minntist Ólafur hins vegar ekki á að skrifstofustjórinn hefði ráðlagt honum að auglýsa starfið.

Benti á laun fyrrverandi miðborgarstjóra

Regína Ásvaldsdóttir bendir einnig á í yfirlýsingu sinni að hún hafi ekki komið að ráðningarsamningi Jakobs Frímanns Magnússonar en hún hafi óskað eftir því að mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar skoðaði launakjör hugsanlegs miðborgarstjóra. „Ég benti á að það væri eðlilegt að líta meðal annars til kjara fyrrum miðborgarstjóra. Að öðru leiti annast mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar ráðningar sem heyra beint undir borgarstjóra," segir Regína og bætir við: „Ég tel að Jakob Frímann Magnússon verði farsæll í starfi sem miðborgarstjóri Reykjavíkur og fagna því að fá hann sem samstarfsmann á skrifstofu borgarstjóra."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×