Innlent

Pólitísk samstaða um kísilverið í Helguvík

Linda Blöndal skrifar
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að taka þátt í undirskriftarsöfnun í bænum vegna Thorsils kísilmálmversins sem rísa á í Helguvík en óánægðir íbúar hafa krafist kosninga um málið. Undirbúningur kísilversins er þó kominn vel á veg og enginn fulltrúa flokkanna í stjórn hefur andmælt því.

Meirihluta andstaða myndi litlu breyta

Bæjarráðið hafnaði þó um leið íbúakosningu sem yrði bindandi. Á annað hundrað manns efndu til mótmæla í Reykjanesbæ fyrr í mánuðinum og kröfðust undirskriftasöfnunar og bindandi íbúakosningar. Forsvarsmenn hópsins benda á að kísilverið verði í aðeins um eins kílómetra fjarlægð frá svæði hestamannafélagsins Mána og í 1,4 kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð.

Fulltrúi meirihlutans í bæjarráði segir þverpólitíska stöðu í bæjarstjórn. Fjórðungur kosningabærra íbúa, um 2.550 til 3.000 manns, þurfa að skrifa undir svo halda megi kosningu.  

Gunnar Þórarinsson, sem situr í meirihluta í bæjarráði Reykjanesbæjar fyrir Á-listann, segir að þverpólitísk samstaða sé um málið í bæjarstjórn. Ef nægilega margar undirskriftir safnast og íbúakosning verður haldin þar sem meirihlutinn er andvígur kísilverinu mun það litlu breyta, sagði Gunnar í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. 

Umhverfismatið samþykkt

„Ég hef ekki trú á því að það breyti neinu, þótt ég vilji ekki fullyrða neitt um það heldur. Þetta er komið það langt á veg. Við erum búin að samþykkja að kísilverið fái þessa lóð og það er búið að samþykkja umhverfismatið. Þannig að það er bara starfsleyfið eftir sem verður formlega tekið með í kjölfarið þess að við afhendum lóðina,“ segir Gunnar. 

Höfum ekki vilja til annars

„Það er náttúrlega allt hægt,“ segir hann aðspurður hvort ferlið sé komið of langt til þess að einhverju verði breytt í því.

„En við höfum held ég engan vilja til þess. Allir flokkar fóru fram í kosningunum með það að leiðarljósi að efla hér atvinnu og við erum bara á þeirri vegferð. Það er það sem við viljum.“

Verður samþykkt

Bæjarstjórnin kemur saman á þriðjudag og víst að þar verður uppbygging kísilversis endanlega samþykkt. Talsmenn mótmælenda vildu ekki tjá sig um málið í dag en meta nú hvort þeir haldi kröfum sínum til streitu. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs bæjarins hefur bókað sérstaklega að hann vilji að íbúarnir fái að kjósa um framkvæmdina án þess að það bindi hendur stjórn bæjarins.

Ekki er ljóst hvort af undirskriftasöfnun verður eða íbúakosningu eins og málin standa nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×