Innlent

Pallbíllinn er of stór fyrir bílastæði í 101

Egill Þórðarson, íbúi í Þingholtunum, fær ekki íbúakort frá Bílastæðasjóði. Ástæðan er sú að bíllinn er sex sentímetrum yfir hámarkslengd sem kveðið er á um í reglum sjóðsins.
Egill Þórðarson, íbúi í Þingholtunum, fær ekki íbúakort frá Bílastæðasjóði. Ástæðan er sú að bíllinn er sex sentímetrum yfir hámarkslengd sem kveðið er á um í reglum sjóðsins. mynd/Steinn þorkell
Íbúi í Þingholtunum fær ekki íbúakort frá Bílastæðasjóði þar sem pallbíll hans er of stór fyrir bílastæðin samkvæmt reglugerð um bílastæði og hámarkslengd bíla. Verið að passa upp á lífsgæði íbúa, segir framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs.

„Kaupi íbúar í póstnúmeri 101 pallbíl þurfa þeir að gjalda fyrir það dýru stöðumælaverði, sem er mun dýrara en kaup á íbúakorti,“ segir Egill Þórðarson, íbúi í Þingholtunum. Hann fær ekki íbúakort frá Bílastæðasjóði þar sem pallbíll hans er of stór fyrir stæðin samkvæmt reglugerð sjóðsins.

Egill segist hafa ætlað að endurnýja íbúakort sitt þegar hann keypti pallbílinn, sem er af gerðinni Ford Explorer Sport Track. Þá hafi hins vegar komið í ljós að nýi bíllinn væri sex sentímetrum of langur, miðað við hámarkslengdina sem leyfileg er samkvæmt reglum Bílastæðasjóðs. Lengd bíls má mest vera 5,2 metrar og breiddin 1,9 metrar.

„Það er ekki verið að banna mér að leggja í stæðin við heimili mitt en ég þarf hins vegar að borga í stöðumæli í stað þess að greiða árgjald fyrir íbúakort sem er mun ódýrara.“

Í bréfi sem Egill hefur sent borgarstjóra segir meðal annars að það komi honum undarlega fyrir sjónir að borgarstjóri skuli skipta sér af því hvers konar ökutæki íbúar eins hverfis megi aka.

Reglurnar ná aðeins yfir hverfi 101 í Reykjavík og segir Egill að sér þyki það gróf mismunun. „Íbúar í hverfi 101 eru einu íbúar Reykjavíkurborgar sem mega ekki ráða bílakaupum sínum sjálfir.“

Útivist og ferðalög eru meðal áhugamála Egils og til þess að geta sinnt þeim segist hann þurfa að eiga vel útbúinn bíl, með góðu geymsluplássi. „Ég bæði bý og starfa í miðbænum en þykir gott að komast út fyrir borgarmörkin af og til,“ segir Egill.

Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, kannast við kvartanir vegna þessara reglna um hámarkslengd og -breidd en að það sé þó ekki mikið um að slíkar kvartanir berist inn á borð til þeirra. Þrengslin í miðbænum séu vissulega meiri og stæðin minni en allir óbreyttir, venjulegir bílar rúmist vel innan þeirra. „Sumar tegundir bandarískra pallbíla eru einfaldlega það stórar að bílarnir rúmast ekki innan stæðanna,“ segir Kolbrún.

Þessum stóru bílum megi hins vegar leggja í stöðumælastæði þar sem ekki er búið að setja reglur um þau og hámarkslengd og -breidd bíla í lög.

„Með reglunum er verið að passa upp á lífsgæði íbúa sem búa þarna,“ segir Kolbrún, en einnig hafi reglurnar verið hugsaðar út frá umhverfissjónarmiðum. Það sé æskilegt að fólk sé á minni bílum því það þýði minni mengun.- gój




Fleiri fréttir

Sjá meira


×