Innlent

Páll Valur hlýtur viðurkenningu fyrir baráttu sína fyrir réttindum barna

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Valur ásamt fulltrúum úr ungmennaráðunum.
Páll Valur ásamt fulltrúum úr ungmennaráðunum. Mynd/UNICEF
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hlaut í dag Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna.

Í tilkynningu frá UNICEF kemur fram að verðlaunin falli í hlut þess þingmanns sem ungmennum þykir hafa staðið sig best í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi á ári hverju. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent. 

Í rökstuðningi ungmennaráðanna kom fram að Páll Valur skari fram úr öðrum þingmönnum við að vekja athygli á hagsmunum barna á Íslandi, ekki síst þeirra barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hann hafi án afláts sett upp „barnagleraugun“ í þeim tilgangi að berjast fyrir réttindum barna á Íslandi. „Barnagleraugun eru tæki sem talsmenn barna á Alþingi eiga að nota til þess að sjá heiminn frá sjónarhorni barns,“ sagði í rökstuðningi ungmennaráðanna.

Mynd/UNICEF
Í frétt á vef UNICEF segir að Páll Valur hafi verið fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem samþykkt var í vor, um að 20. nóvember, alþjóðlegur dagur barnsins, verði helgaður fræðslu um réttindi barna í grunnskólum landsins. Þá hefur hann beitt sér fyrir því að grunnskólanám verði raunverulega gjaldfrjálst, bent á aðstöðuleysi á Litla-Hrauni og að börn geti ekki heimsótt feður sína sem þar eru vistaðir, lagt fram fyrirspurnir til ráðherra um málefni barna, til dæmis um börn með ADHD og skyldar raskanir, barist gegn efnislegum skorti meðal barna og svo mætti lengi telja.

Nánar er fjallað um málið í frétt UNICEF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×