Innlent

Óvíst hvort að Steingrímur muni fylgja áætlun Árna Páls eftir

Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason
Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason mynd/samsett-Vísir.is
Vegna breytinganna í ríkisstjórninni er nú algjör óvissa uppi um risavaxið mál sem Árni Páll Árnason hafði í vinnslu í ráðuneyti sínu sem efnahags- og viðskiptaráðherra, en hann hafði í undirbúningi að ná samningi við Evrópusambandið um undanþágu frá Maastricht-skilyrðunum til að geta afnumið gjaldeyrishöftin og tekið upp evru sem gjaldmiðil samhliða aðild.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fór í febrúar á þessu ári til Brussel og ræddi við Olli Rehn, yfirmann efnahagsmála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Markmið og tilgangur fundarins var að ræða höftin og gjaldmiðlamál.

Samkvæmt heimildum fréttastofu varð að samkomulagi að reyna að leita lausna á því hvernig afnema mætti gjaldeyrishöftin sem fyrst en Rehn mun hafa gert sér grein fyrir hversu þung í skauti höftin væru fyrir Íslendinga og mun hafa tekið vel í að nálgast þetta með samvinnu.

Allt þetta ár hefur verið unnið að tillögum að samningsafstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu í gjaldmiðilsmálum og frá því í febrúar hefur því verið unnið eftir þeirri áætlun að Ísland geti tekið upp evru fyrr en ella með sérstakri undanþágu frá Maastricht-skilyrðunum en undir venjulegum kringumstæðum tekur nokkkur ár að komast inn í Evrópska myntbandalagið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er óvíst hvort Steingrímur J. Sigfússon muni framfylgja sömu áætlun og mótuð var í tíð Árna Páls Árnasonar, en til stóð að efnahagsráðherra færi til Brussel í janúar næstkomandi til að kynna tillögur sem unnið var eftir með það fyrir augum að afnema höftin fyrr en ella og flýta upptöku evru þannig að hægt yrði að taka hana upp samhliða aðild að Evrópusambandinu, færi svo að þjóðin samþykkti aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×