Innlent

Óupplýst lögreglumál - Morð og andlát ungs manns

Eitt þekktasta óupplýsta morðmál á Íslandi, morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra í janúar 1968, verður til umfjöllunar í næsta þætti af Óupplýstum lögreglumálum næstkomandi sunnudagskvöld. Sviplegt fráfall tvítugs manns, Benedikts Jónssonar, verður einnig til umfjöllunar í þættinum en Benedikt lést af völdum áverka sem hann hlaut eftir slagsmál fyrir utan skemmtistaðinn Þórscafé í nóvember 1974.

Gunnar Tryggvason leigubílstjóri fannst látinn í leigubíl sínum, 18. janúar 1968 við Laugalæk í Reykjavík. Gunnar hafði verið skotinn í hnakkann en lögreglu gekk erfiðlega að finna ummerki eða vísbendingar sem nýttust við rannsókn málsins.  Sumir hafa líkt morðinu á Gunnari við aftöku, en engin ummerki voru um slagsmál eða átök í leigubílnum.

Það var svo ekki fyrr en rúmu ári síðar að byssa fannst og eftir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, og síðar Scotland Yard í Bretlandi, var hægt að staðfesta að umrædd byssa væri morðvopnið. Einn maður sat lengi í gæsluvarðhaldi grunaður um morðið en hann var síðar sýknaður.

Ungur maður lést eftir slagsmál við skemmtistað

Benedikt Jónsson frá Stóru-Ávík á Ströndum fannst meðvitundarlaus fyrir utan skemmtistaðinn Þórscafé 9. nóvember 1974. Lögregla flutti hann á slysadeild en hann lést áður en þangað var komið. Benedikt hafði verið að skemmta sér á Þórscafé ásamt félaga sínum og lent í slagsmálum fyrr um kvöldið. Það voru þó engir áverkar voru á líkama hans og aldrei var upplýst um dánarorsök Benedikts.

Fjórði þáttur Óupplýstra lögreglumála verður sýndur næstkomandi sunnudag kl. 20:30 á Stöð 2. Hægt er að horfa á fyrri þætti á VOD / Stöð 2 Frelsi, í gegnum OZ í iPad og iPhone og Netfrelsi á Stod2.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×