Innlent

Óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ölvunarláta íslenskrar konu í vél Primera Air

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eftir læti og tóm leiðindi lognaðist konan útaf í sæti sínu og rankaði að lokum við sér við lendingu.
Eftir læti og tóm leiðindi lognaðist konan útaf í sæti sínu og rankaði að lokum við sér við lendingu. Vísir
Farþegar í flugi Primera Air frá Alicante til Keflavíkur í fyrrakvöld urðu að sætta sig við læti í íslenskri konu sem hafði farið fram úr sér við drykkju og gott betur en það. Þegar ferðalagið var um hálfnað fór að bera á látunum í konunni sem ónáðaði fyrst og fremst fólkið í kringum sig en síðar urðu flestir ef ekki allir í vélinni vitni að framkomu konunnar.

Sofandi börn vöknuðu grátandi og stóð sumum farþegum í vélinni ekki á sama þegar konan hafði sem hæst. Vandaði hún íslenskum bankamönnum og samfélaginu ekki kveðjurnar og gekk svo að neyðarútgangi þar sem spænskur flugfarþegi hindraði för hennar.

Eftir læti og tóm leiðindi lognaðist konan útaf í sæti sínu og rankaði að lokum við sér við lendingu. Þar tóku íslenskir lögreglumenn frá Suðurnesjum á móti henni. Var notast við hjólastól vegna ástands konunnar.

Lögreglan á Suðurnesjum staðfesti í samtali við Vísi að óskað hefði verið eftir aðstoð lögreglu vegna málsins. Konan hefði verið komin úr vélinni þegar lögreglumenn bar að garði og henni komið í hendur nánustu ættingja sem mættir voru til að sækja hana. Málinu væri lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×