Erlent

Ósáttir við að setja á fjóra milljarða í byggingu nýs þinghúss

Atli Ísleifsson skrifar
Aleqa Hammond, forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands
Aleqa Hammond, forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands
Grænlendingar hafa margir hneykslast á áformum grænlensku heimastjórnarinnar um byggingu nýs þinghúss þar sem kostnaðurinn við framkvæmdina þykir allt of hár. Áformin hafa leitt til einhverra fjölmennustu mótmæla í sögu landsins.

Kostnaður við byggingu nýs þinghúss í höfuðborginni Nuuk er áætlaður um fjórir milljarðar íslenskra króna sem Grænlendingum þykir mörgum vera allt of hár á tímum þegar landið glímir við efnahagslegan vanda.

Danska blaðið Politiken segir frá því að um þúsund manns hafi komið saman til mótmæla í síðustu viku, bæði til að lýsa yfir óánægju með áætlaðan kostnað framkvæmdarinnar sem og bækling heimastjórnarinnar um áformin sem dreift var á öll heimili.

Í bæklingnum segir að ákvörðun um staðsetningu verði tekin í íbúakosningu á netinu og eru þrír möguleikar kynntir til sögunnar. Vildu menn meina að fjallað sé um tvo möguleikana á þann hátt að heimastjórnin hafi þegar ákveðið hver endanleg staðsetning skuli verða. Er einni staðsetningunni þannig lýst að þinghúsið yrði aðþrengt og annarri sem óheppilegri þar sem þinghúsið yrði of nærri matvöruverslunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×