Innlent

Öryrkjabandalagið segir greiðsluþak of hátt í nýju frumvarpi

Heimir Már Pétursson skrifar
Öryrkjabandalagið telur að að greiðsluþátttaka öryrkja í heilbrigðiskerfinu verði of mikil samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra. Þá gagnrýnir bandalagið að það hafi ekki verið haft með í ráðum við samningu frumvarpsins.

Samkvæmt frumvarpi ráðherra á heilsugæslan í vaxandi mæli að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Með nýja greiðsluþátttökukerfinu kemur ekki aukið fjármagn heldur verður byrðunum í vaxandi mæli deilt á þá sem þurfa minnst á þjónustunni að halda.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bæði mánaðarlegt og árlegt þak verði sett á kostnað fólks í heilbrigðiskerfinu. Þannig að hann verði aldrei meiri en 95 þúsund krónur á ári,  en í kringum 65 þúsund krónur á ári hjá eldri borgurm og öryrkjum.

Öryrkjabandalagið fékk Gunnar Alexander Ólafsson hagfræðing til að meta tillögurnar í frumvarpi heilbrigðisráðherra og boðaði til málþings um þær í dag. Hann segir þakið í frumvarpinu of hátt.

„Lyfjakostnaður er líka fyrir utan þannig að fyrir einstakling getur hámarksþakið verið allt að 157 þúsund krónur. Sem enn og aftur er allt of hátt. Jafnvel tvöfalt ef ekki þrefalt hærra en til dæmis í Svíþjóð. En ég held að samanlagður hámarkskostnaður þar sé í kring um fimmtíu þúsund,“ segir Gunnar Alexander.

Hjá öryrkjum geti þakið verið í kring um hundrað þúsund með lyfjakostnaði. Heilbrigðiskostnaður muni hins vegar lækka hjá mörgum og það sé fagnaðarefni að ætlunin sé að setja þak á þennan kostnað yfirleitt.

„Mér skilst að heildarkostnaður ef við gerðum allt gjaldfrjálst sé 6,5 milljarðar. Ef við myndum kannski setja tvo til þrjá milljarða til viðbótar í niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustu værum við að tala um allt annað þak en er í þessu frumvarpi,“ segir Gunnar Alexander.

Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalagsins gagnrýnir að bandalagið hafi ekki fengið að koma að mótun frumvarpsins þótt tillögurnar séu skref í rétta átt. Þakið þurfi að lækka og fella þyrfti fjölbreyttari heilbrigiðsþjónustu undir það.

„Við höfum séð það á síðast liðnum árum að frestun á læknisheimsóknum hjá örorkulífeyrisþegum hefur stóraukist. Við teljum mjög mikilvægt að þarna innundir falli tannlæknakostnaður og sálfræðikostnaður, sálfræðiþjónusta og svo tæknifrjóvganir. Þetta erum við ekki að sjá í þessum tillögum, segir Ellen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×