Innlent

Opinber tvíræðni í samningaferlinu að ESB

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ráðuneyti hans segir að engin áform séu uppi um stofnun greiðslustofnunar í landbúnaði. Á sama tíma vinna embættismenn hans náið með utanríkisráðuneytinu að samningsferlinu við ESB og sækja um styrki til að undirbúa þessa sömu stofnun.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ráðuneyti hans segir að engin áform séu uppi um stofnun greiðslustofnunar í landbúnaði. Á sama tíma vinna embættismenn hans náið með utanríkisráðuneytinu að samningsferlinu við ESB og sækja um styrki til að undirbúa þessa sömu stofnun.

Engin áform eru uppi um stofnun greiðslustofnun í landbúnaði, segir sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið, þrátt fyrir að sótt hafi verið um sérfræðistyrki til ESB með milligöngu utanríkisráðuneytisins til að undirbúa slíka stofnun hér á landi.

Engin áform eru um að breyta íslenskum lögum eða reglugerðum til að stofna greiðslustofnun í landbúnaði eða taka upp byggðaáætlun að hætti Evrópusambandsins, fyrr en aðild að sambandinu hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og formlega staðfest af Íslandi og ESB.

Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við spurningum sambandsins en Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. ESB spurði hvernig hvernig og hvenær Ísland hygðist aðlaga lagaumhverfi sitt hvað varðar stofnun greiðslustofnunar og fleiri breytingar varðandi stjórn- og eftirlitskerfi landbúnaðarins. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa svörin ekki verið send út og eru þau til umfjöllunar hjá utanríkisráðuneytinu.



Búið að sækja um styrkina


Eins og fréttastofa hefur greint frá hefur þegar verið ákveðið að sækja um styrki til ESB, svokallaða TAIEX-styrki, (technical assistance information exchange program) en um er að ræða sérfræðiráðgjöf frá Evrópusambandinu til að vinna að gerð landupplýsingakerfis annars vegar og stofnun greiðslustofnunar hins vegar. Utanríkisráðuneytið hafði milligöngu um styrkumsóknirnar, en sú tilhögun var ákveðin af ríkisstjórninni eftir pólitískan ágreining innan ríkisstjórnarinnar í málinu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fá beinan fjárstuðning frá ESB vegna verkefnanna, þ.e svokallaða IPA-styrki, vegna andstöðu ráðherra Vinstri grænna við slíka styrki.

Fyrirvari hefur verið gerður um að engar varanlegar breytingar verði gerðar á íslenskri stjórnsýslu fyrr en þjóðin hefur samþykkt aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fram hefur komið í fjölmiðlum, m.a á Stöð 2, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi ekki verið upplýstur um að sótt hafi verið um TAIEX-styrkina, en fréttastofa hefur heimildir fyrir því innan úr samninganefndinni að sótt hafi verið um styrkina með fullri vitund ráðherrans.

Afstaða ráðuneytisins af hinu góða?

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að innan samninganefndir megi finna sjónarmið um að afstaða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til spurningalista ESB sé af hinu góða því líta megi svo á að með því að svara ESB með þessum hætti, þ.e tilkynna að framangreind tvö mál séu ekki á dagskrá í íslenskum landbúnaði, og gera ekki athugasemdir við annað, sé ráðuneytið að lýsa því yfir að samningaferlið haldi áfram og þar með sé það óbeint að lýsa yfir stuðningi við þá vegferð ríkisstjórnarinnar að klára samningaferlið.

Ekki náðist í morgun í Bjarna Harðarson, upplýsingafulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til að fá svör við því hvaða þýðingu svör ráðuneytisins hefðu. Þá vildu embættismenn í ráðuneytinu sem fréttastofa ræddi við ekki tjá sig. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×