Innlent

Opinber smánun þótti ómanneskjulegt refsiúrræði en viðgengst daglega á samfélagsmiðlum

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagaðideild Háskóla Íslands, segir mikilvægt að fólk sem vilji búa í réttarríki taki ekki þátt í að smána fólk opinberlega á samfélagsmiðlum fyrir mistök sín.

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þótt Hafsteinn nefni engin sérstök dæmi tengd opinberri smánun hér á landi þá eru þau til að mynda Lúkasarmálið, mál systranna Hlínar og Malínar og miðavandræði Björns Steinbeck. Vísir
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, segir mikilvægt að fólk sem vilji búa í réttarríki taki ekki þátt í að smána fólk opinberlega á samfélagsmiðlum fyrir mistök sín. Hann segir jafnframt að opinber smánun hafi áður verið opinbert refsiúrræði en það hafi verið að mestu lagt af vegna þess að það þótti of skaðlegt.

Hafsteinn hélt fyrirlestur á hátíðarmálþingi Orator, félags laganema við HÍ, á miðvikudag. Umræðuefni málþingsins var réttarríkið í nútímasamfélagi og erindi Hafsteins hafði yfirskriftina „Réttarsalir samfélagsmiðlanna.“

„Ég var með hugleiðingar um atriði sem er búið að vera mér ofarlega í huga. Það heitir public shaming, eða opinber smánun eða niðurlæging,“ segir Hafsteinn í samtali við Vísi.

Hann segir að kjarni réttarríkisins felist í því að samfélagið lúti lögum og að borgarar sem og valdhafar séu bundnir lögum.

„Hluti af þessu er að ef einhver brýtur af sér þá verður honum ekki gerð nein refsing nema samkvæmt lögum og í kjölfar réttlátrar málsmeðferðar. Við erum með stofnanir, dómstóla, ákæruvald, verkaskiptingu og allt þetta. Þessu réttarríki sem komið er á fót til að tryggja þetta, því stendur margvísleg ógn á öllum tímum. Því stendur auðvitað ógn af fasistum og alræðissinnum hverskonar sem vilja rífa þetta niður. En því stendur líka stundum ógn úr óvæntari átt sem er sumir lýðræðissinnar, fólks sem vill vel og finnst stofnanir ekki vera að virka nægilega vel, finnst þær hafa brugðist, kalla eftir árangri en ekki einhverjum skýrslum og nefndum. Þetta spila popúlistar oft inn á, hvort sem þeir eru Donald Trump eða Duterte í Filippseyjum,“ segir Hafsteinn.

Hann segist hafa verið að velta málinu fyrir sér undanfarið og þá sérstaklega eftir að hafa séð TED fyrirlestur Monicu Lewinsky og eftir að hafa lesið bókina So You‘ve Been Publicly Shamed eftir Jon Ronson. Í bókinni talar Ronson við fólk sem hefur orðið fyrir því að vera smánað opinberlega á Twitter og verið tekið fyrir í því sem Hafsteinn kallar snjóflóð smánunar, hótana og vandlætingar.

TED fyrirlestur Monicu Lewinsky, þar sem hún ræðir smánun sem hún varð fyrir í kjölfar ástarsambands síns við Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta, má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Hafsteinn bendir á að opinber smánun hafi hér áður fyrr verið hluti af réttarkerfum vesturlanda en var lögð af vegna þess að hún þótti of gróf. Opinber smánun eða niðurlæging var tiltölulega algeng refsing á nítjándu öld en var mestmegnis lögð af á tuttugustu öld.

„Það fól í sér að í stað þess að fangelsa einstakling eða sekta, þá var hann niðurlægður opinberlega. Settur á torgið í gapastokk eða flengdur opinberlega, velt upp úr tjöru og fiðri og svo framvegis. Þetta leggst af í réttarkerfum okkar. Ekki vegna þess að þetta virki ekki, heldur vegna þess að þetta virkaði of vel. Þetta er of skaðlegt, þetta er of eitrað. Þetta eitrar samfélagið of mikið og skemmir einstaklingana of mikið. Þetta er lagt af í réttarkerfinu en þetta er komið aftur í rauninni, bara á samfélagsmiðlunum,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn segir að samfélagsmiðlar hafi gegnt mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi og hafi gert mikið gagn, almennt fyrir samfélagið sem og réttarkerfið þegar upplýsa hefur þurft um glæpi. Hann segir þó að þeir hafi sínar skuggahliðar. 

„Ein af þessum skuggahliðum er þessi opinbera smánun sem viðgengst þar. Þar sem fólk, stundum fyrir litlar eða nánast engar sakir, fyrir að segja misheppnaðan brandara eða eitthvað er slitið úr samhengi, verður fyrir því sem ég hef kallað snjóflóði á netinu. Þar sem það er alveg tekið og sallað niður með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi. Fólk glímir við þunglyndi, getur ekki eignast vini eða maka vegna þess að um leið og því er slegið upp á Google kemur fram hvers lags viðbjóður þetta fólk sé að mati einhverra annarra. Það fylgja þessu sjálfsvíg og svo framvegis.“

Hafsteinn segir að sálfræðirannsóknir hafi einnig sýnt fram á að tilfinningin sem fylgi því að vera niðurlægður opinberlega sé rosalega sterk, jafnvel sterkari en gleði og sorg. Sem dæmi tekur hann bókina The Murderer Next Door, eða morðingjann í næsta húsi. Bókin er byggð á rannsókn sálfræðingsins David M. Buss og þar kemur fram að 91 prósent karla í Bandaríkjunum og 84 prósent kvenna hafi látið sig dreyma eða velt því fyrir sér að myrða einhvern.

„Þegar rannsóknin er skoðuð nánar kemur í ljós að ástæðan fyrir því að fólk vill drepa einhvern er yfirleitt ekki sú að viðkomandi hafi svikið þau í viðskiptum, hafi lamið þau, ráðist á þau, rispað bílinn þeirra eða eyðilagt eitthvað fyrir þeim. Heldur er þetta fólk sem hefur niðurlægt viðkomandi. Jafnvel bara þannig að þetta er krakkinn í menntaskólanum sem er í hádegishléinu og hann er niðurlægður fyrir framan samnemendur sína og þeir fara að hlæja að honum. Eitthvað smáræði sem gerist. Nemendurnir sem hlógu eru kannski búnir að gleyma þessu eftir tvo tíma en nemandinn sem var niðurlægður hann fer heim til sín og fantaserar um það hvernig hann á að drepa viðkomandi. Þetta er rosalega sterk tilfinning.“

Snjókornið finnur ekki fyrir ábyrgð

„Ég fór að velta því fyrir mér hvað gerir það að verkum að sómakært fólk tekur þátt í þessari skriðu, að hella sér yfir fólk á netinu,“ segir Hafsteinn og bætir við að fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir gjörðum þeirra.

„Það er svo góð setning í bókinni hans Ronson, þar sem segir „snjókornið finnur ekki fyrir ábyrgð á snjóflóðinu.“

Þetta sýnir okkur hvernig þetta er öðruvísi heldur en til dæmis í hefðbundnu fjölmiðlunum þar sem fólk er svo meðvitað um ábyrgðina. Ef ég ætla til dæmis að setja eitthvað á forsíðu Fréttablaðsins á morgun þá veit ég að það mun kalla fram viðbrögð. Ég veit að ég mun líklega rústa lífi viðkomandi með því. En ég þarf að gera það vegna einhverra aðstæðna. Og það er gert eftir ákveðnum siðareglum og svo framvegis,“ segir Hafsteinn.

„En þarna er ekki þessi ábyrgðartilfinning vegna þess að þú ert bara eitt lítið snjókorn í snjóflóðinu. Þú ert bara að taka þátt í að gera grín að einhverjum, síðan gleymirðu því. En þó að þitt tíst sé lítið þá er það hluti af snjóflóðinu. Síðan virðist líka vera að fólk fái einhverja nautn úr því að sjá einstaklinga falla af stalli, að rífa fólk niður. Þannig að oft er jafnvel svona stallur búinn til. Fólk er að rífa einhvern niður af Twitter og það einhvern veginn, ég tók dæmi um það að sögusagnir fara af stað um að viðkomandi sé valdamikill eða ríkur eða eitthvað svona því það virðist hjálpa fólki, þá finnst því þægilegra að rústa honum.“

Frá hátíðarmálþingi Orator.Orator
Hann segir að jafnvel geti það spilað inn í að fólk hafi þörf til að tengja sig atburðum.

„Það virðist vera rík þörf hjá okkur, ef eitthvað merkilegt gerist eða eitthvað er að gerast þá viljum við blanda okkur í það og fá einhver læk. Svo er það eitt sem er kallað virtue signalling á ensku, það er að segja þegar þú hneykslast og sýnir fyrirlitningu á einhverjum ummælum þá ertu að sýna hvað þú sjálf ert dyggðug og vönduð manneskja. Síðan eru auðvitað aðrir sem eru nettröll sem svífast einskis og þetta leiðir mjög oft til þess að fólk missir vinnuna því það hellast skeyti og ábendingar yfir vinnuveitenda og jafnvel kröfur um að viðkomandi verði rekinn.“

Hann segir það algengara í tilfellum karla en kvenna að þess sé krafist að þeir missi vinnuna, konum bíði frekar hótanir um kynferðisofbeldi. 

„Þeir sem ganga lengst í þeim viðbjóð, um nauðganir og svoleiðis, þeir fá svo aldrei skriðuna á sig. Þeir eru bara hluti af snjóflóðinu og það er ekkert hægt að sveigja snjóflóðið, það lendir aldrei á þeim. Þannig að fólk getur gengið rosalega langt í því að taka þátt í opinberri niðurlægingu og smánun án þess að þurfa að svara fyrir það.“

Hataðasta kona internetsins

Hafsteinn segir það flókið og oft óhugsandi að láta fólk bera ábyrgð á orðum sínum í málum þar sem fólk hefur verið smánað.

„Til dæmis í þessum dæmum sem ég rakti. Í tilfelli Justine Sacco, sem er kona sem setti út mjög óheppilegt tíst áður en hún fór í flug til Afríku. Það var brandari sem misskildist, húmor sem átti að beinast að hennar forréttindum en kom mjög illa út.“

Justine Sacco var á JFK flugvelli á leið til Suður Afríku þegar hún sendi frá sér tístið „Nú er ég leiðinni til Afríku. Vonandi fæ ég ekki AIDS. Djók ég er hvít!“ Sacco sem sjálf er frá Suður-Afríku, sagði seinna að hún hafi ætlað sér að hæðast að forréttindum sínum og þeim fordómum gagnvart Afríku sem fólk heldur uppi.

Hún setti tístið fram áður en hún fór í 11 klukkutíma langt flug frá New York til Höfðaborgar og svaf allt flugið. Þegar hún lenti í heimalandi sínu og kveikti á símanum blöstu við henni hundruð skilaboða um að hún væri umtalaðasta kona heims. Í kjölfarið missti Sacco vinnuna og hafði fólk fylgst með mannorði hennar breytast í sand í beinni útsendingu. Margir tístu hlutum eins og „Er Justine Sacco búin að missa vinnuna?“ og virtust margir gleðjast yfir óförum hennar.

„Hún var einhver umtalaðasti einstaklingurinn á Twitter í heiminum. Þannig að við erum að tala um hundruðir þúsunda sem taka þátt í árásinni á hana. Þessi hefðbundnu tól, að stefna fjölmiðlinum og svo framvegis, það virðist vera eitthvað sem er mjög erfitt að ætla sér að gera og breytir í rauninni kannski litlu þegar upp er staðið fyrir viðkomandi, fyrir upplifun viðkomandi af þessu,“ segir Hafsteinn.

„Opinber smánun er refsiúrræði sem við lögðum af fyrir löngu síðan í réttarkerfum vesturlanda, meðal annars vegna þess hve ómanneskjulegt það er. Þetta er snúið aftur til baka. Ekki innan réttarkerfisins sjálfs með öllum sínum réttarfarsreglum og ekki innan fjölmiðlanna með sínar siðareglur blaðamanna. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu, ég hugsa að lögfræðingarnir þurfi líka aðeins að fara að hugsa þetta. Þetta í rauninni ógnar þeim verðmætum og gildum sem réttarríki er ætlað að tryggja fólki.“

TED fyrirlestur Jon Ronson, höfundar So You've Been Publicly Shamed, má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Margir Íslendingar hafa fengið að kenna á opinberri smánun án þess þó að Hafsteinn nefni nokkur dæmi. Mörg þeirra eru þó alþekkt úr fjölmiðlum og er það frægasta líklega Lúkasarmálið, sem er flestum Íslendingum eflaust enn í fersku minni. Hundurinn Lúkas týndist sumarið 2007. Þá var karlmaður sakaður um að hafa orðið hundinum að bana en hann mátti þola miklar ofsóknir – allt þar til hundurinn fannst loks, heill á húfi, þremur mánuður eftir að hann týndist. Þá höfðu verið haldnar kertafleytingar og minningarathafnir fyrir Lúkas svo fátt eitt sé nefnt. Meintur dýraníðingur fékk í kjölfarið 200 þúsund krónur í miskabætur.

Fleiri Íslendingum hefur verið úthúðað eftir misgáfuleg ummæli eða gjörðir og má þar nefna til að mynda systurnar Malín og Hlín sem reyndu að kúga fé úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem þá var forsætisráðherra. Þá má einnig nefna Björn Steinbeck sem fékk það óþvegið í kjölfar þess að hundruð manna stigu fram og sögðu Björn hafa svikið sig um miða á leik Íslands á Evrópumótinu í fótbolta síðastliðið sumar. Ummæli Hildar Lilliendahl um söngkonuna Hafdísi Huld vöktu sömuleiðis mikla hneykslan.

En hvað er hægt að gera, ef eitthvað?

„Ég veit ekki svarið við því og er örugglega ekki bestur til að meta það. En ég er aðeins búinn að hugsa það og ætla að skoða þetta meira. Við getum ekki losnað við nettröllin svokölluðu. Það verða alltaf einstaklingar sem ganga mjög langt í svívirðingum og hótunum. Ég held að best væri ef sómakært, ígrundað fólk sem vill vel og vill búa í réttarríki og samfélagi, ef það hættir að taka þátt í þessu og áttar sig á því að þó það sé bara snjókorn þá er það hluti af snjóflóði. Ef það áttar sig á því og hættir þessu þá væri ástandið miklu skárra,“ segir Hafsteinn.






×