Menning

Önuga karluglan sem sló í gegn

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Fredrik Backman. Útgefandinn tímdi ekki að borga undir hann á Bókamessuna í Gautaborg því hann hélt að enginn hefði áhuga. Backman fór því sjálfur, áritaði 500 bækur og seldi réttinn á bókinni til tíu landa.
Fredrik Backman. Útgefandinn tímdi ekki að borga undir hann á Bókamessuna í Gautaborg því hann hélt að enginn hefði áhuga. Backman fór því sjálfur, áritaði 500 bækur og seldi réttinn á bókinni til tíu landa. Mynd/Kalle Assbring
Hinn 32 ára gamli Svíi Fredrik Backman sló rækilega í gegn í heimalandi sínu síðastliðið haust með sinni fyrstu skáldsögu, Maður sem heitir Ove. Þetta er bráðfyndin en um leið harmrænni sögu um þvergirðinginn Ove, 59 ára gamlan ekkil sem hefur allt á hornum sér en þarf að fóta sig upp á nýtt í lífinu eftir fráfall eiginkonu sinnar og atvinnumissi.

Rétturinn á bókinni hefur verið seldur til fjölda landa; hún kom út í íslenskri þýðingu hjá Veröld á dögunum og til stendur að gera kvikmynd eftir henni innan tíðar. Backman hefur starfað sem lausapenni og er gríðarvinsæll bloggari í Svíþjóð en um 50.000 manns fylgjast reglulega með heimasíðu hans.

Backman segir það hafa blundað í sér lengi að skrifa skáldsögu. 

„Ég leit hins vegar ekki á það sem raunhæfan möguleika, ég hélt ekki að fólk hefði nógu mikinn áhuga á því sem ég skrifa til að ég gæti lifað af því. Mér finnst það enn mjög ótrúlegt.“

Í biðröð í Apple-verslun

Backman segist þó ekki geta sagt til um hvenær bókin kom til hans, eins og margir höfundar.

„Þetta byrjaði bara á skemmtilegum karakter sem óx á blogginu mínu og Jonasar Cramby, sem bloggar á sömu síðu og ég, Cafe.se. Við kölluðum þennan karakter „Ove“ og hann var svona góðlátleg alhæfing um hinn dæmigerða sænska, miðaldra karl; manngerð sem amast við öllu og öllum á grundvelli prinsippa. Konan mín segir að ég sé smám saman að breytast í þennan karl en Ove er samsuða úr mörgum körlum, þar á meðal mér, og líka konum. Ég vona að það sé eitthvað algilt við hann, eitthvað sem er auðvelt að skilja og samsama sig með burtséð frá því hver maður er eða hvar maður býr.“



Hugmyndin að því að skrifa heila bók um Ove kviknaði hins vegar í biðröð í Apple-verslun.

„Ég stóð fyrir aftan mann sem var alveg brjálaður út í starfsfólkið því það gat ekki útskýrt fyrir honum hvað iPad væri. Ég sá gremjuna safnast upp þegar starfsfólkið reyndi að skýra að þetta væri tölva en samt ekki og þegar hann komst að því að það fylgdi ekki lyklaborð sprakk hann.

Ég hugsaði með mér að þetta gæti orðið fjandi fín byrjun á bók. Ég spurði Jonas hvort ég mætti nota þennan karakter sem við höfðum verið að leika okkur með, sem hann samþykkti góðfúslega. Ég byrjaði að skrifa og nú erum við hér.“

Ove á oft kollgátuna

Ove er ekki geðugur maður, uppfullur beiskju og óþoli gagnvart þeim sem ekki sjá heiminn frá hans bæjardyrum eða hafa ekki unnið sér meira til saka en að kunna ekki að bakka með kerru. Backman segist þó ekki hafa haft áhyggjur af því að Ove væri of fráhrindandi.

„Mér finnst hann ekki svo óþolandi. Jú, Ove stendur á sínu, er jafnvel þrjóskur og andstyggilegur, en hann vill vel og oft hefur hann jafnvel á réttu að standa, eða það finnst mér að minnsta kosti, og þess vegna finnst mér Ove umfram allt hrikalega skemmtilegur. Ég skil hins vegar vel að margir lesendur líti á hann sem algjöran skíthæl en það þýðir þá að ég er oft líka algjör skíthæll.“

Það hangir margt á spýtunni í Manni sem heitir Ove; að eldast, ástvinamissir, kynslóðabilið, að vera utanveltu í samfélaginu og þar fram eftir götunum. Barátta Ove við „kerfið“ er líka veigamikill þáttur í frásögninni. Backman segir bókina þó ekki endilega endurspegla sýn hans á hvernig það er að eldast í Svíþjóð eða fela í sér meðvitaða gagnrýni, til dæmis á hið rómaða sænska velferðarkerfi.

„Ég hef aldrei lagt upp með það að skrifa samfélagslega gagnrýni. Ég er satt best að segja ekki nógu klár til þess. Ég er bara náungi sem vill segja sögur eins vel og skemmtilega og ég get. Ef fólk vill kryfja bókina eitthvað frekar er því auðvitað frjálst að gera það en sjálfur hugsa ég aldrei um söguna sem eitthvað annað og meira en sögu.“

Frásögnin einkennist af hárfínu jafnvægi milli kaldhæðni og einlægni. Backman segist ekki hafa lagt sérstaka áherslu á það.

„Ég kann einfaldlega að meta kaldhæðni, það er minn húmor, en á hinn bóginn er ég líka frekar tilfinninganæmur maður. Mér finnst húmor fyndnastur þegar í honum er einhver undirliggjandi tregi og öfugt.“



Vinsældirnar komu á óvart

Backman segir vinsældir bókarinnar hafa komið sér rækilega á óvart og ekki síður útgefanda hans.

„Þegar bókin kom út í september í fyrra spurði ég útgáfustjórann hvort ég ætti að fara og árita á Bókamessunni í Gautaborg. Hann hló bara að mér og sagði: „Nei nei, þú yrðir bara vonsvikinn því enginn myndi mæta.“ Ég borgaði því undir mig sjálfur og bjó mig undir að fimm manns létu sjá sig. Þeir urðu um 500 og daginn eftir seldi umboðsmaðurinn minn réttinn að bókinni til tíu landa. Það var fyrst þá sem ég sagði við konuna mína: „Fjandinn, þetta gæti orðið eitthvað.“

Það er ekki á vísan að róa í bókabransanum og Backman segir að þrátt fyrir vinsældir Ove sé ekki öruggt að hann geti endurtekið leikinn.

„Ove virðist hafa hreyft við einhverju djúpstæðu í fjölda fólks. Margir virðast kannast við hann úr eigin umhverfi; eiginmanni, föður, nágranna eða hvaðan sem er, og þykir þess vegna kannski meira til hennar koma en hæfileikar mínir segja endilega til um.

Ég held að það sé ekki hægt að spá því með vissu hvort bók eigi eftir að slá í gegn. Mér á ábyggilega ekki eftir að takast það með hverri bók sem ég skrifa. Ef ég skrifa einhvern tímann aðra bók sem verður jafnvinsæl yrði það frábært. Ef ekki er ég sáttur við að hafa gert það að minnsta kosti einu sinni.“

Backman hefur þegar lokið við næstu skáldsögu sína, Min mormor hälsar och säger förlåt (Amma biður að heilsa og biðst fyrirgefningar), sem kemur út í Svíþjóð í haust.

„Hún fjallar um sjö ára gamla stúlku, sem á ýmislegt sameiginlegt með Ove; hún er skapill og finnst fólk vera fífl. Hún á hins vegar ömmu af því tagi sem fólk kallar „sérstakt“; ein af þessum ömmum sem reykir innandyra á spítölum, fer nakin út á svalir og skýtur á Votta Jehóva með málningarbyssu. Þetta er öðruvísi bók en Maður sem heitir Ove en ég vona að hún rati til sinna.“

Bloggsíðu Fredriks Backman má finna undir léninu fredrik.cafe.se.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×