Fótbolti

Olympiakos í viðræðum um kaup á Alfreð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fer Alfreð Finnbogason að skora í Grikklandi?
Fer Alfreð Finnbogason að skora í Grikklandi? Fréttablaðið/Getty
Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gæti verið á leið til gríska stórliðsins Olympiakos en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins í Grikklandi eiga grísku meistararnir í viðræðum við Heerenveen um kaupverð á framherjanum.

Alfreð hefur farið á kostum á síðustu tveimur árum með Heerenveen og er markahæsti leikmaðurinn í deildinni í sögu félagsins. Hann fékk gullskóinn eftir tímabilið og er einn af eftirsóttari framherjum Evrópu í dag. Hann skoraði 53 mörk í 65 leikjum fyrir Heerenveen í hollensku deildinni.

Heimildir Fréttablaðsins herma að erfiðlega hafi gengið í samningaviðræðum félaganna en þau færist nú nær því að komast að samkomulagi um kaupverð. Olympiakos er tilbúið að greiða fyrir hann sex milljónir evra.

Heerenveen hafnaði tíu milljóna evra tilboði frá Fulham á lokadegi félagaskipta í janúar, sem Alfreð var ósáttur við. Ástæða þess að gríska liðið þarf ekki að jafna það tilboð er að Alfreð á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Heerenveen en þegar svo ber undir eru leikmenn almennt ódýrari.

Olympiakos þarf ekki að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum. Það er langstærsta félagið í Grikklandi. Það hefur unnið grísku deildina 41 sinni og er fastagestur í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×