Innlent

Ögmundur ítrekað spurður hvenær og hvernig hann ætli að svara Nubo

Pirringur Samfylkingarmanna í garð atvinnustefnu Vinstri grænna opinberaðist á Alþingi í dag þegar Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, reyndi að fá Ögmund Jónasson innanríkisráðherra til að svara því hvenær og hvernig hann hygðist afgreiða ósk Kínverjans Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Fyrirspurnin bar þess merki að óþreyju er farið að gæta í Samfylkingunni gagnvart ráðherra Vinstri grænna en Kristján benti á að nú væru hátt í tveir og hálfur mánuðir liðnir frá því erindið barst inn en ekkert svar væri komið.

Pirringurinn leyndi sér ekki í garð atvinnustefnu samstarfsflokksins þegar fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar sagði að nú væri komið þetta ,,eitthvað annað" sem talað hefði verið um í svo langan tíma um leið og hann spurði hvenær ráðuneytið hygðist svara erindi Nubos um undanþágu til að kaupa jörðina.

,,Og er einhver ástæða til að halda að það svar verði neikvætt?" spurði Kristján, og sagði að sér hefði fundist koma fram í svörum ráðherrans í fjölmiðlum um málið að hann væri mjög neikvæður fyrir því.

Ögmundur sagði að hér væri um stórt mál að ræða og það yrði vandað til úrskurðarins, sem hann vonaðist til að lægi fyrir fljótlega, eða svo fljótt sem auðið væri.

Kristján ítrekaði þá seinni spurningu sína um hvort ráðherrann hygðist veita undanþáguna ,,eða hvort þetta á að liggja í ráðuneytinu" og sagði sporin hræða.

Ögmundur sagði það rétt hjá þingmanninum að sporin hræddu. ,,Við þekkjum ýmsa loftkastalasmiði frá fyrri árum og ég hélt nú að Íslendingar vilji stíga varlega til jarðar þegar menn með dollara í augunum eða mikla fjármuni á milli handa, meinta, eru hér á sveimi. Við tökum þann tíma sem við þurfum," sagði ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×