Golf

Ógleymanlegur afmælisdagur hjá Coetzee

Jón Júlíus Karlsson skrifar
George Coetzee er meðal efstu kylfinga á Opna breska.
George Coetzee er meðal efstu kylfinga á Opna breska. Vísir/AP
George Coetzee frá Suður-Afríku átti svo sannarlega magnaðan 28 ára afmælisdag. Coetzee er meðal efstu manna á samtals fimm höggum undir pari á Opna breska eftir að hafa leikið annan hring mótsins á 69 höggum eða þremur höggum undir pari.

Hringurinn var flottur hjá Coetzee sérstaklega í ljósi þess að sterkur vindur í morgun á Royal Liverpool gerði mörgum kylfingum erfitt fyrir.

„Þetta er mitt eftirlætis risamót og gaman að leika vel í því,“ sagði hinn hægláti Coetzee sem tryggði sér keppnisrétt í mótinu með því að sigra Joburg Open mótið á Evrópumótaröðinni snemma á þessu ári.

„Það er svalt að sjá nafnið sitt á toppi skortöflunnar,“ sagði Coetzee sem viðurkennir að það hafi tekið á taugarnar að vera efstur þegar hann gekk inn á 18. flöt í morgun.

„Það á ekki að trufla hvernig þú leikur en það kannski hafði áhrif á mig að ég missti pútt á 16. braut. Þetta gerist þegar þú ert í forystu. Það er frábært að leika svona vel í svona virtu golfmóti og einnig á afmælisdeginum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×