Skoðun

Ófaglegar tillögur Mannréttindaráðs

Vegna tillagna sem Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til umfjöllunar um samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarfélaga vill stjórn Félags kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði (FÉKKST) koma eftirfarandi á framfæri.

FÉKKST er fagfélag innan Kennarasambands Íslands og eitt af meginmarkmiðum félagsins er að gæta hlutleysis og hlúa að greininni á faglegan hátt. Við viljum njóta trausts og vera hafin yfir ásakanir um trúboð í skólum. Fagmenntun kennara á að tryggja nemendum óhlutdræga fræðslu.

Stjórn félagsins telur að ákvæði um að banna heimsóknir nemenda í bænahús trúfélaga feli í sér skerðingu á möguleikum kennara í trúarbragðafræði til að beita fjölbreyttum kennsluháttum. Slíkar vettvangsferðir eru vænlegur kostur til að dýpka skilning nemenda á ákveðnum viðfangsefnum og þjóna þeim tilgangi að kynna fyrir þeim hlutverk og innviði þessara bygginga, trúartákn sem þar er að finna og skipulag. Umrædd fræðsla hefur ekkert með trú nemandans að gera. Þvert á móti er verið að efla víðsýni nemenda og leitast við að fyrirbyggja fordóma.

Víða í aðalnámskrá grunnskóla er talað um vettvangsferðir sem mikilvægan hluta af námi nemenda. Hér stangast tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur á við áherslur í aðalnámskrá.

Með ákvæðum um bann við trúarlegri listsköpun og notkun sálma er einnig verið að hamla því að beitt sé skapandi og fjölbreyttum vinnubrögðum í trúarbragðakennslu. Biblían og önnur trúarrit eru uppfull af táknrænu myndmáli sem birtist í listasögunni og trúarleg efni hafa verið listamönnum innblástur í gegnum aldirnar. Í aðalnámskrá grunnskóla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði er bæði gert ráð fyrir að nemendur kynnist listrænni tjáningu trúar og fái tækifæri til listrænnar sköpunar. Eftirsóknarvert þykir að samþætta kennslu í trúarbragðafræði við listgreinar og háleit markmið aðalnámskrár grunnskóla í listgreinum frá árinu 2007 bera þess glöggt vitni. Í henni má finna mýmörg dæmi um mikilvægi listsköpunar í námi barna.

Svo virðist að kennurum sé ekki treystandi lengur til að beita kennsluháttum sem fela í sér listsköpun er tengjast trúarlegum viðfangsefnum án þess að í því felist trúarleg tilbeiðsla. Í aðalnámskrá grunnskóla er mikil áhersla lögð á skapandi vinnu nemenda og þykir okkur skjóta skökku við ef ekki má beita slíkum vinnubrögðum í trúarbragðakennslu.

Í markmiðskafla nýju grunnskólalaganna er tóku gildi 1. júlí árið 2008 segir í 2. grein:

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að Íslendingar eru þjóð með kristna menningararfleifð sem skólarnir taka mið af. Skólinn hefur m.a. menningarlegum skyldum að gegna gagnvart nemendum sínum. Í grunnskólum borgarinnar er skólamenning sem sérhver skóli hefur mótað og þróað í starfi sínu. Ýmsir viðburðir og hefðir hafa fest sig í sessi og eru í dag órjúfanlegur þáttur í starfi skólanna. Má þar nefna kirkjuheimsóknir og helgileiki nemenda fyrir jól. Þannig heimsóknir þarf þó að skipuleggja út frá forsendum skólans sem fræðslustofnun með nemendur með ólíkan bakgrunn.

Trúarbrögð gegna veigamiklu hlutverki í menningu og þjóðlífi og það hlýtur að teljast afneitun á þeirri staðreynd að ætla að skera á öll tengsl skóla og trúarstofnana í landinu. Félagið telur sjálfsagt mál að setja ramma um samstarf skóla og trúar- og lífskoðunarfélaga en telur tillögur Mannréttindaráðs með boðum og bönnum ekki vænlega leið.

Stjórn FÉKKST þykir miður að tillögur Mannréttindaráðs skuli hamla skapandi skólastarfi á sviði trúarbragðafræðslu og takmarka sjálfstæði kennara í sínu faglega starfi. Markmið skólastarfs og kennslu er að gera nemendur meðvitaða um fjölbreytileika mannlífsins, stuðla að umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum fólks og fyrirbyggja fordóma. Þykja okkur tillögurnar sem eru til umfjöllunar hjá Mannréttindaráði bæði vanhugsaðar og gallaðar og hvetjum til að þær verði dregnar til baka í núverandi mynd.

Hér hefur aðeins verið drepið á örfá atriði sem stjórn FÉKKST vill vekja athygli á að svo stöddu.

Við teljum að tillögur Mannréttindaráðs vegi að fagmennsku kennara og séu ekki til þess fallnar að skapa þá nauðsynlegu sátt sem ríkja þarf um námsgreinina og skólastarfið almennt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×