Lífið

Ófærð verður sýnd á BBC

Birgir Olgeirsson skrifar
Baltasar Kormákur er leikstjóri Ófærðar.
Baltasar Kormákur er leikstjóri Ófærðar. mynd/universal
Breska ríkisútvarpið BBC hefur tryggt sér sýningarétt á íslensku þáttaröðinni Ófærð sem verður sýnd á BBC 4 undir heitinu Trapped. Á vef TelevisionBusinessInternational kemur fram að BBC hafi náð samningum við kvikmyndagerðarmanninn Baltasar Kormák um sýningaréttinn.

Þættirnir segja frá líkfundi í íslenskum bæ í þann mund sem óveður skellur og lamar allar samgöngur. Það gerir það að verkum að íbúarnir eru veðurtepptir í bænum á meðan rannsóknin stendur yfir.

„Þættirnir eru úr smiðju þekktasta kvikmyndagerðarmanns Íslands, Baltasar Kormáks. Fyrirtæki hans RVKStudios sér um framleiðslu þeirra og á meðal leikarar eru Ólafur Darri Ólafsson, úr TrueDetective, og BjarneHenriksen, úr Forbrydelsen,“ segir á vef TBI-Vision.

Áætlaður kostnaður við framleiðslu þáttanna er talinn milljarður króna en um er að ræða evrópskt samstarf á milli ríkisfjölmiðla á Íslandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Frakklandi.

Tökur á þáttunum hófust í janúar síðastliðnum og var áætlað að þær myndu standa yfir í um 90 daga. Mikil leynd hvíldi yfir söguþræðinum á meðan tökum stóð og fengu leikararnir til að mynda ekki að vita neitt um framvindu sögunnar fyrr en komið var að því að taka þau atriði upp þar sem það var uppljóstrað.

Uppfært: 

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því haldið fram að Ófærð sé fyrsta íslenska þáttaröðin sem sýnd er á BBC. Það er ekki rétt því BBC hefur sýnt bæði Vaktaseríurnar og Latabæ. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×