Menning

Óður til kynlífs og hvöt gegn klámi

Sigríður Jónsdóttir segist hafa verið knúin áfram af innri þörf til að skrifa ljóðabók um kynlíf.
Sigríður Jónsdóttir segist hafa verið knúin áfram af innri þörf til að skrifa ljóðabók um kynlíf. Fréttablaðið/Stefán
Sigríður Jónsdóttir, bóndi og kennari á Suðurlandi, sendi frá sér sína aðra ljóðabók í haust. Kanill er hispurslaust kver um holdsins lystisemdir.

Ævintýri og örfá ljóð um kynlíf er undirtitill Kanils, annarrar ljóðabókar Sigríðar Jónsdóttur, bónda í Arnarholti og kennara í Reykholtsskóla í Biskupstungum. Undirtitillinn lýgur engu, kvæðin eru mörg hver blautleg, til dæmis ljóðið um elskuhugann sem er „ófeiminn eins og bráðger foli/ ógeltur í apríl" og gerir sitthvað með „sprota sínum" sem ekki er hafandi eftir í borgaralegu dagblaði.

Spurð hvað hafi orðið til þess að hún orti bók hún kynlíf segist Sigríður einfaldlega hafa neyðst til þess.

„Eins og með allt sem ég yrki, það er þessi knýjandi innri þörf skáldsins og þetta efni sótti mjög fast að mér." Fyrri ljóðabók hennar, Einnar báru vatn, kom út 2005. Hún var að sögn Sigríðar „venjuleg ljóðabók" um ýmislegt efni, en sum ljóðanna í Kanil voru ort meðfram. „Ég ákvað aftur á móti að gefa þessi ljóð út sér, þau styngju kannski of mikið í stúf í hinni bókinni."

Sigríður segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við bókinni. „Það kom mér eiginlega á óvart hversu vel henni hefur verið tekið; ólíklegustu sveitungar mínir hafa lýst yfir ánægju sinni og fallið þetta í geð. Ég verð ekki vör við að fólk sé feimið við þetta efni. Það tengist kannski því að mér fannst ég þurfa að yrkja þetta og aldrei koma neitt annað til greina en að gefa þetta út, því fyrst ég þurfti að skrifa þetta þyrfti einhver annar að lesa þetta. Það tel ég hafa verið raunin."

Stigið milli hins fína og dólgslega getur verið vandratað þegar nautnir holdsins eiga í hlut og í ljóð Sigríðar dansa sum við roðmörkin. Sjálf segist hún líta á bókina sem „antíklám". „Ég er mjög frábitin klámi og er eiginlega í herferð gegn því. Þessi bók er fyrst og fremst óður til kynlífs og ástarinnar; kynæxlunin er samofin sögu lífs á jörðinni og þetta er elsta söguefni í heimi."

Sigríður segist yrkja tiltölulega lítið. Hún hafi sett saman vísur og ljóð á unglingsaldri, hætt því en tekið upp þráðinn eftir tuttugu ára hlé og segir aldrei hafi annað hvarflað að sér en að reyna að fá það útgefið. „Ætli það sé ekki framhleypnin í mér, að minnsta kosti hefur mér aldrei dottið í hug að yrkja fyrir skúffuna. Það eru nokkrir hlutir í lífinu sem ég hef ákveðið að taka mér fyrir hendur. Eitt af því var að skrifa bækur og það gekk eftir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×