Erlent

Obama með tilfinningaþrungna ræðu um byssueign

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kynnti nýja áætlun sína um lög vegna byssukaupa á sjötta tímanum í dag. Áætlunin snýr að ítarlegri bakgrunnsskoðunum á kaupendum skotvopna, en Obama ætlar að fara fram hjá þinginu til að ná sínu fram.

Obama hélt ræðu í Hvíta húsinu í dag, þar sem hann sagði að það væri vel mögulegt að draga úr skotárásum í Bandaríkjunum og í senn halda öðru ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna. Ákvæðið tryggir íbúum landsins rétt til að eiga skotvopn.

„Þú ferð í gegnum bakgrunnsskoðun og kaupir vopn. Vandamálið er að sumir vopnasalar starfa eftir öðrum reglum.“

Í salnum þar sem Obama hélt ræðu sína voru meðal annars foreldrar barna sem létu lífið í skotárásinni í grunnskólanum í Sandy Hook árið 2012.

„Þess vegna erum við hér, ekki til að tala um síðustu árás, heldur til að koma í veg fyrir þá næstu,“ sagði Obama. „Þrýstihópar byssueigenda halda kannski þinginu í gíslingu, en þeir geta ekki haldið Bandaríkjamönnum í gíslingu.“

Hér að neðan má sjá mánaðargamalt myndband Vox um byssuvandan í Bandaríkjunum.

Áætlun Obama felur í sér að allir vopnasalar þurfi að framkvæma bakgrunnsskoðanir á kaupendum. Með því verður undanþága sölu á netinu og byssusýningum afnumin. Þá þurfi ríki að veita upplýsingar um fólk með geðvandamál og alvarlega dóma á bakinu. Þar að auki eigi alríkislögreglan í Bandaríkjunum, FBI, að ráða 230 manns sem eiga að framkvæmda bakgrunnsskoðanirnar. 

Auk þess vill forsetinn að þing Bandaríkjanna verji fé til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi og að ríkið rannsaki leiðir til að gera byssur öruggari.

Mark Barden, faðir drengs sem lét lífið í skotárásinni í Sandy Hook talaði á undan Obama. Nokkur atriði sem AP fréttaveitan dró fram. Samantekt BBC. Ræða Obama í heild sinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×