Innlent

Óbærilegt að sjá enga manneskju allan daginn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eldri borgarar sem nýta sér þjónustu mötuneytis Eirborga í Grafarvogi, sem borgin rekur, eru miður sín vegna ákvörðunar um að maturinn verði ekki lengur í boði um helgar og á helgidögum. Talsmaður íbúanna segir þá hreinlega kvíða framtíðinni og að hætta sé á að fólk einangrist félagslega.

Jón Gunnar Ásgeirsson, tónskáld, leggur vanalega af stað í hádegismat í mötuneytinu í þjónustumiðstöðinni Eirborgum í Grafarvogi rétt fyrir klukkkan tólf á hádegi. Þar er framreiddur heitur matur í hádeginu en nú um áramótin varð sú breyting á að maturinn er ekki lengur í boði um helgar og á helgidögum. 

„Þegar við gerðum okkar leigusamninga þá var okkur sagt að við myndum fá mat á hverjum degi. Um það hefur verið rifist,“ segir Jón.

Íbúar geta þó alltaf fengið heimsendan mat frá borginni, sem kostar 200 krónum meira en máltíðin í mötuneytinu.

„Og borða einn. Þetta eru svona plastbakkar og maturinn er settur í bakkana tveim dögum áður. Og geymt svo í kælingu. Þetta er nú ekki lystilegur matur,“ segir Jón.

„Lengstu dagar sem ég hef lifað það voru dagarnir tveir um daginn, laugardagur og sunnudagur. Þetta er svo óbærilegt, að sjá enga manneskju allan daginn“, segir Sigrún Þorleifsdóttir, sessunautur Jóns.

Eir óskaði eftir að taka að sér rekstur mötuneytisins en borgin vildi það ekki. Þá segir Jón að íbúarnir hafi boðist til að borga meira fyrir máltíðina um helgar og á helgidögum en að það hafi ekki verið til umræðu. Málið brennur á íbúunum en Ásta Jónsdóttir hefur fjórum sinnum á síðustu tveimur árum staðið fyrir undirskriftasöfnunum til að reyna að tryggja að það yrði áfram matur um helgar. 

„Fólk er ekki ánægt með þetta og fólk kvíðir fyrir framtíðinni,“ segir Ásta. Heimsendur matur geri ekkert í félagslegu tilliti. Forgangsröðunin hjá borginni sé kolröng.

„Fyrr en varir eru þeir sem ráða núna orðnir eldri borgarar. Borgarstjóri er að tala um að það eigi að gera Reykjavík að ellivænni borg og það eigi að stuðla að því að fólkið búi heima sem lengst. Þetta er þvert á móti,“ segir Ásta. 


Tengdar fréttir

Uppnám vegna matarleysis um helgar

Hætt er að framreiða mat um helgar í félagsmiðstöð aldraðra. Borgin bendir á að hægt sé að fá matarbakka senda heim. "Félagslegi þátturinn mikilvægastur,“ segir íbúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×