Viðskipti innlent

Óákveðið hverjir fá kauprétt hjá Eimskip

Magnús Halldórsson skrifar
Ekki hefur endanlega verið ákveðið hvaða lykilstjórnendur Eimskipafélagsins munu fá kauprétt á hlutum í félaginu. Virði þessa fornfrægafélags er metið á tugi milljarða, ríflega þremur mánuðum áður en það verður skráð á markað.

Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær munu lykilstjórnendur Eimskipafélags Íslands fá kauprétt í félaginu sem nemur um þremur og hálfu prósenti af heildarhlutafé. Miðað við það virði sem hluthafar í félaginu, sem eru ríflega 70, hafa fengið kynningu á að undanförnu þá er virði félagsins metið á bilinu 25 til 39 milljarðar króna.

Reksturinn hefur tekið algjörum stakkaskiptum eftir að endurskipulagningu lauk, en eiginfjárhlutfall félagsins er nú ríflega 60 prósent og var rekstrarhagnaðurinn ríflega milljarður króna á fyrsta fjórðungi ársins.

Þetta fornfræga félag, sem stundum hefur verið nefnt flaggskip íslensks atvinnulífs, verður skráð á markað á nýjan leik í septembermánuði, gangi áform stjórnar Eimskipafélagsins eftir. Ekki liggur enn fyrir hvaða lykilstjórnendur munu fá kauprétt á hlutum í félaginu, né heldur hvernig kaupin verða útfærð, þ.e. á hvaða gengi stjórnendurnir fá að kaupa hlutina eða hvort þeir fá hlutina jafnvel án greiðslu, eins og dæmi eru um.

Frekari útlistun á þessu kaupréttarkerfi, og fleiri þáttum í rekstri félagsins, mun þó liggja fyrir þegar skráningarlýsingargögn verða lögð fram, skömmu áður en félagið verður skráð á markað, í septembermánuði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×