Erlent

Nýtt Facebook kynnt á morgun - miklar breytingar í vændum

Mark Zuckerberg mun kynna nýtt Facebook á morgun
Mark Zuckerberg mun kynna nýtt Facebook á morgun mynd úr safni
Facebook mun gjörbreyta viðmóti síðunnar í þessari viku. Sumir íslenskir notendur hafa nú þegar tekið eftir einhverjum breytingum en samkvæmt heimildum erlendra fjölmiðla mun stærsta breytingin verða gerð á morgun.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, mun kynna breytingarnar á ráðstefnu á morgun sem ber heitið f8. Heimildarmenn bandarísku fréttastofunnar CNN segja breytingarnar verða þær mestu sem gerðar hafa verið á samskiptasíðunni vinsælu frá opnun hennar. Breytingarnar miða allar að því að gera persónulegu síðu hvers notanda að helsta samskiptavettvangi vefjarins. Þannig eigi að fá notendur Facebook til dvelja þar lengur á hverjum degi þar sem þetta nýja fyrirkomulag er tímafrekara.

Þá herma heimildir New York Times að síðan muni koma á fót margmiðlunarkerfi sem sýni hvað notandi er að horfa á eða hlusta á hverju sinni. Til að mynda ef notandinn er að hlusta á Lady Gaga þá verði vinum hans kleift að sjá hvaða lag hann er að hlusta á með söngkonunni.

Einhverjir ættu að hafa tekið eftir breytingum á Facebook og er þessi breyting á meðal þeirra sem er komin í loftið.
Þær breytingar sem margir Íslendingar hafa nú þegar tekið eftir eru meðal annars að vinsælustu færslurnar frá því að notandi skráði sig síðast inn á síðuna birtast nú efst og verða merktar sérstaklega. Þá hefur Facebook forritað kerfi sem skynjar hvaða færslur kunna að vekja mestan áhuga notandans og merkir þær sérstaklega.

Þá hefur verið nefnt að Facebook muni opna sölu á forritum, eða svokallað „app store" þar sem notendur geta nálgast viðbætur, til dæmis leiki og forrit gegn gjaldi.

Facebook hefur neitað að tjá sig um breytingarnar en ýmsar fréttir af þeim hafa lekið í bandaríska fjölmiðla. Samkvæmt heimildum CNN vinna nú starfsmenn síðunnar hörðum höndum að því að fínpússa þetta nýja kerfi áður en það verður kynnt opinberlega á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×