Lífið

Nýr bíll sem eykur lífsgleði langveikra barna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Þeir eru flottir og duglegir þessir Lionsmenn að safna fyrir svona höfðinglegri gjöf,“ segir Guðrún um bílinn góða.
„Þeir eru flottir og duglegir þessir Lionsmenn að safna fyrir svona höfðinglegri gjöf,“ segir Guðrún um bílinn góða. Vísir/Anton Brink
„Svona bíl fylgir algert frelsi fyrir okkur, það er svo gott fyrir börnin að geta komist úr húsi,“ segir Guðrún Ragnars deildarstjóri í Rjóðrinu, hvíldar-og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn, eftir að hafa tekið við splunkunýjum bíl frá Lionsklúbbi Kópavogs. Heimilið er hluti af barna-og kvennasviði Landspítalans og er á lóð spítalans í Kópavogi.

Þrjátíu fjölskyldur koma með börnin sín í Rjóðrið einu sinni í mánuði til að fá smá hvíld og líka tilbreytingu fyrir börnin, að sögn Guðrúnar. „Hér eru fimm til sex börn í sólahringsinnlögnum á hverjum tíma og tvö til þrjú í dagvist.“



Áður var Rjóðrið með bíl sem Lionshreyfingin á Íslandi safnaði fyrir með sölu Rauðu fjaðrarinnar árið 2006. Lionsklúbbur Kópavogs seldi hann upp í þennan nýja sem er af gerðinni Renault Trafic. Hann er fyrir sex farþega í venjulegum sætum og einn hjólastól.

„Við getum farið með þrjá eða fjóra krakka og þrjá starfsmenn, því hvert barn þarf yfirleitt mann með sér. Við förum í sunnudagsbíltúra,  í húsdýragarðinn og í sveitaheimsóknir. Reynum að gera eitthvað skemmtileg. Svo nota ég bílinn líka í útréttingar svo hann kemur að góðum notum,“ lýsir Guðrún og segir gjöfina ómetanlega.

„Svona velvild líknarfélaga og almennings gerir það að verkum að við getum boðið upp á gæðaþjónustu og aukið lífsgæði barnanna sem eru hjá okkur.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×