Enski boltinn

Nýliðarnir semja við norskan framherja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joshua King fagnar einu af sárafáum mörkum sínum.
Joshua King fagnar einu af sárafáum mörkum sínum. vísir/getty
Nýliðar Bournemouth halda áfram að bæta við sig mannskap fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur.

Þeir eru búnir að ganga frá samningi við norska framherjann Joshua King sem spilað hefur með Blackburn í B-deildinni undanfarin tvö ár.

King hefur verið á Englandi síðan hann var 16 ára gamall, en hann byrjaði í unglingaakademíu Manchester United og fór þaðan á láni til Preston, Mönchengladbach, Hull og Blackburn.

Hann var inn og út úr liðinu hjá Blackburn á síðustu leiktíð, en í heildina spilaði hann 16 leiki og skoraði aðeins eitt mark.

King spilaði 32 leiki í B-deildinni í fyrra og skoraði þá aðeins tvö mörk þannig ekki er Bournemouth að semja við mikinn markaskorara.

Blackburn vildi engu að síður halda King hjá félaginu og bauð honum nýjan samning. Hann vildi frekar spila í ensku úrvalsdeildinni og fagnar því að spila undir stjórn Eddie Howe sem kosinn var stjóri ársins á árshátíð samtaka þjálfara í ensku deildakeppninni.

Bournemouth var fyrr í vikunni búið að ganga frá samningum við markverðina Artur Boruc og Adam Federici.

Boruc, sem er 35 ára gamall Pólverji, spilaði með Bournemouth í vetur á láni frá Southampton og er nú alfarið genginn í raðir nýliðanna.

Howe og félagar styrktu markvarðastöðuna enn frekar með því að semja við Ástralann Federici sem spilað hefur með Reading undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×