Innlent

Nýjum reglugerðum fylgi gífurlegur kostnaður fyrir svínabændur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tvær myndir sem sýna aðbúnað gyltna á búum Ingva en þær birtast í skýrslu MAST.
Tvær myndir sem sýna aðbúnað gyltna á búum Ingva en þær birtast í skýrslu MAST. myndir/mast
„Mér fannst tímabært að reyna að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan,“ segir Ingvi Stefánsson svínabóndi í samtali við Vísi. Ingvi rekur tvö svínabú, annað þeirra er gyltubú í Pálmholti í Reykjadal og hitt er grísaeldisbú í Teigi, Eyjafjarðarsveit.

Aðbúnaður á svínabúum hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu eftir að RÚV fjallaði um skýrslu Matvælastofnunar þar sem aðbúnaður á mörgum býlum er sagður óviðunandi. Ingvi telur að umfjöllunin hafi verið helst til of einhliða eins og kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans.

Ingvi bendir þar meðal annars á að úrbætur á regluverki svínaræktarinnar hafi verið fyrir löngu orðnar tímabærar en þar er til að mynda kveðið á um að allar gyltur skuli hafðar í lausagöngu. Kynbætur á svínum hér á landi, síðasta rúma áratuginn, hafa skilað miklum árangri og skrefið því nauðsynlegt fyrir þær.

„Ég sé eftir því árið 2008 að hafa ekki horft lengra fram í tímann og stigið lengra en lög kváðu á um varðandi lausagöngu,“ skrifar Ingvi. Í samtali við Vísi segir hann að árið 2008 hafi hann keypt búið í Pálmholti og gert á því miklar endurbætur. Þær endurbætur séu hins vegar úreltar nú þær séu ekki samræmi við ný lög og reglur. „Það er samt erfitt fyrir reksturinn að þurfa að horfa á eftir fjárfestingunni enda líftími búnaðarins langt frá því að vera liðinn.“

Ingvi ásamt eiginkonu sinni, Selmu Dröfn Brynjarsdótturmynd/ingvi
Aðlögunartími minni hér en annarsstaðar

Hingað til hefur Ísland verið örlítið eftir á samanborið við nágrannaþjóðir okkar. Ný reglugerð um aðbúnað svína mun hins vegar setja Ísland fremsta í flokk ásamt Norðmönnum.

„Það er náttúrulega frábær þróun og henni ber að fagna en það má gera athugasemd við aðlögunartímann. Samanborið við löndin í kringum okkur fá svínabændur mun skemmri tíma til að koma málum hjá sér í stand og að auki þurfa þeir að greiða þær allar úr eigin vasa. Á sama tíma fá kollegar okkar úti styrki frá ríkisstjórnum og ESB,“ segir Ingvi við Vísi. Hvað lausagöngu gyltna í goti varðar að þá fá t.d. Norðmenn helminginn greiddan í formi styrks og Danir fjörutíu prósent.

Á Íslandi eru tólf framleiðendur svínakjöts á 21 búi. Kostnaður við þær breytingar sem þarf að gera til að uppfylla skilyrði nýrra reglna er metinn um 3.200 milljónir. „Fyrir mitt bú, sem er kannski með um fimm prósent markaðshlutdeild, þýðir þetta í kringum 160 milljónir lauslega áætlað. Það er meira en ég velti á einu ári,“ segir Ingvi.

„Mig langar alveg rosalega til að setja undir mig hausinn og fara í þessar fjárfestingar. Segja bara eins og við Íslendingar gerum svo oft „þetta reddast“ Auðvitað dreymir mig – sem bónda – um að fara í bættan aðbúnað þar sem gylturnar geta verið í lausagöngu bæði í geldstöðu og goti. Þannig myndi ég standa samhliða kollegum mínum í Noregi sem eru langt á undan öðrum þjóðum. Það væri svo sannarlega draumurinn,“ skrifar hann.

Nýr tollasamningur skapar óvissu

Auknar framkvæmdir þýða hins vegar aukinn framleiðslukostnaður og þar með að staða gagnvart innflutningi versni í samræmi við það. Nýir tollasamningar við Evrópusambandið hafa síðan í för með sér að staða kjötsins á markaði verður að öllum líkindum verri en hún er í dag.

„Það sem mér finnst nú sárgrætilegast í þessu öllu saman er að ég hef afar litla trú á því að ávinningur af því að flytja inn ódýrara kjöt frá ESB muni skila sér í vasa neytenda, nema þá í mjög takmörkuðum mæli. Máli mínu til stuðnings bendi ég á að frá því í janúar 2013 til september á þessu ári hefur verð á svínakjöti til okkar bænda lækkað um tæp níu prósent. Á sama tíma hefur verðið til neytenda hækkað um fjögur til tíu prósent,“ skrifar hann. 

Í skýrslu MAST er að finna tvær myndir frá búum Ingva en þær myndir fylgja báðar fréttinni. Hann skrifar að það væri freistandi að fordæma kollega sína fyrir þær myndir sem birtast frá þeirra búum en það ætli hann hins vegar ekki að gera. Fyrir því séu nokkrar ástæður.

„Sú fyrsta er sú að þessar myndir eru teknar fyrir meira en ári síðan og ég trúi því og treysti að MAST hafi í samstarfi við viðkomandi bú komið á úrbótum. Önnur ástæðan er sú að í landinu eru á bilinu 3600-3800 gyltur og ég vil ekki alhæfa út frá 5-10 ljótum myndum,“ skrifar hann. Hann bætir því síðan við að eflaust megi á einhverjum tímapunkti koma inn á bú í hans eigu og taka myndir af dýrum sem ekki séu til fyrirmyndar. „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“

Ágæti fésbókarvinur!Vil byrja á að vara við að þetta er mjög langur pistill :)Í ljósi umræðu síðustu daga um slæman...

Posted by Ingvi Stefánsson on Sunday, 4 October 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×