Innlent

Ný lög ætti frekar að kalla lög um bann við skeldýrarækt

Vilmundur Jósefsson
Vilmundur Jósefsson
Nýleg lög um skeldýrarækt ætti frekar að kalla lög um bann við skeldýrarækt. Þetta segir formaður Samtaka atvinnulífsins sem gagnrýnir þann frumskóg eftirlitsaðila og stofnana sem komast þarf í gegn um til að hefja ræktun kræklinga.

Enginn nýliðun hefur orðið í hópi þeirra sem rækta krækling á Íslandi eftir að Alþingi setti í fyrrasumar lög um kræklingarækt.

Greint var frá því í Fréttum Stöðvar 2 í gær að eftirlits- og leyfisveitingakerfið sem stjórvöld hafa sett upp í kring um kræklingarækt sé að kæfa greinina í fæðingu.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir kerfið hamla atvinnusköpun.

„Það liggur alveg fyrir að þegar við þurfum á því að halda að koma atvinnuvegum af stað, þá skýtur það skökku við að þegar verið er að setja lög um nýja grein, eins og í þessu tilfelli skeldýrarækt, sem nýlega er búið að setja lög um, ég hef kallað þetta frekar lög um bann við skeldýrarækt vegna þess að það er svo mikið mál að koma þessu af stað," segir Vilmundur.

Hann bendir á að veitt séu tilraunaleyfi til skeldýraræktar, til að hámarki sex ára.

„Fyrir þessari starfsemi sem felst jú bara í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir að kræklingur festi sig þar á og vaxi síðan upp í tiltekna stærð. En til að komast af stað og fá þetta tilraunaleyfi þá þarf að leita leyfis hjá samtals tíu aðilum. Þetta er algjörlega út í hött, ef ég á að orða þetta bara beint."

Hvernig ætti þetta að vera að þínu mati?

„Í rauninni ætti þetta að vera þannig að það þurfi ekki að leita nema til eins aðila, ekki síst þar sem um svona einfalda aðgerð er að ræða," segir Vilmundur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×