Viðskipti innlent

Notendur AwareGo nálgast milljón

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Úr auglýsingu AwareGo. Á meðal stærstu viðskiptavina fyrirtækisins eru Credit­Suisse og Barclays.
Úr auglýsingu AwareGo. Á meðal stærstu viðskiptavina fyrirtækisins eru Credit­Suisse og Barclays.
Íslenska fyrirtækið AwareGo hefur gert gagnkvæman sölusamning við The Security Awareness Company í Bandaríkjunum. AwareGo framleiðir tölvuöryggismyndbönd með skilaboðum til starfsmanna um hvernig eigi að varast þjófnað á rafrænum gögnum og fleira er snertir öryggi.

Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo, segir að Security Awarenes Company sé það stærsta og þekktasta í sínum geira í heiminum í dag. „Okkar lausnir passa vel inn í þeirra vöruframboð og við höfum nú þegar fengið góð viðbrögð hjá nokkrum af þeirra lykilviðskiptavinum. Nú stendur yfir vinna við að þýða myndböndin yfir á tíu tungumál,“ segir Ragnar í samtali við Markaðinn.

Notendur AwareGo nálgast eina milljón út um allan heim en stærstu viðskiptavinirnir eru GE, Barclays og Credit Suisse. Ragnar segir að næsta skref hjá fyrirtækinu verði að gera vöruna skalanlegri. Það þýðir að útbúa hana til þess að hægt sé að selja hana á internetinu í stað þess að fyrirtækið verði að afgreiða hverja einustu pöntun. Með því verði auðveldara að afgreiða minni og meðalstór fyrirtæki.

Þá vill Ragnar leggja meiri áherslu á og setja meiri peninga í markaðssetningu. Það þýðir að geta farið á sýningar og keypt auglýsingaborða og ráðist í vörumerkjaþróun. Hingað til hafi fyrirtækið selt vöru sína í gegnum persónulegt tengslanet sem hafi verið myndað á netinu. „Við viljum leggja svolitla áherslu á það, að gera okkur svolítið sýnilegri,“ segir Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×