Erlent

Nota umfangsmikið net aflandsfélaga til að komast hjá þvingunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Yfirvöld Norður-Kóreu komast hjá viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna gegn landinu með umfangsmiklu neti aflandsfélaga. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem hefur ekki verið birt opinberlega. Blaðamenn Reuters fréttaveitunnar hafa komist yfir eintak af drögum skýrslunnar.

Umfangsmiklum viðskiptaþvingunum hefur verið beitt gegn Norður-Kóreu til að reyna að hægja á þróun eldflauga og kjarnorkuvopna í landinu. Sameinuðu þjóðirnar settu rannsóknarnefnd á laggirnar til að kanna fregnir um að ríkið væri að komast hjá þvingununum.

Í skýrslu nefndarinnar segir að aðferðir Norður-Kóreu til að komast hjá þvingununum sé sífellt að verða betri og umfangsmeiri. Útsendarar ríkisins eru sagðir vera einstaklega hæfir í að flytja peninga, fólk og vörur, þar á meðal vopn.

Þrátt fyrir áðurnefndar þvinganir hafa yfirvöld ríkisins aðgang að alþjóðbankakerfinu með krókaleiðum og þegar það er ómögulegt, notast þeir við gífurlegt magn af reiðufé og gulli. Jafnvel er vitað til þess að íbúar annarra ríkja hafi verið notaðir sem milliliðir.

Þá segir í skýrslunni, samkvæmt Reuters, að flugsending til Eretríu hafi verið stöðvuð í fyrra og í henni hafi fundist talstöðvar til hernaðar sem Norður-Kórea var að selja. Það var önnur vopnasending á milli ríkjanna sem hefur verið stöðvuð.

Talstöðvarnar voru framleiddar af fyrirtæki í Malasíu sem kallast Glocom. Því er stjórnað af einni leyniþjónustu Norður-Kóreu, Reconnaissance General Bureau.

Kína tilkynnti nýverið að þeir muni ekki kaupa kol af Norður-Kóreu á þessu ári. Kolasala er helsta tekjulind Norður-Kóreu. Rannsóknarnefndin segir að þrátt fyrir að ríkið megi einungis selja takmarkað magn af kolum, er útflutningur enn þá mikill í gegnum áðurnefnd aflandsfélög.

Nefndin segir eftirfylgni vegna þvingananna vera ábótavant og kallar eftir auknum aðgerðum til að koma í veg fyrir viðskipti Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Bróðurmorð og innflutningsbann

Furðufréttir berast enn frá Norður-Kóreu. Yfirvöld eru talin hafa látið myrða bróður leiðtoga ríkisins. Kínverjar sett innflutningsbann á kol frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×