Erlent

Norsk börn fá ekki að leita réttar síns hjá SÞ

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
„Við vonum að íslensk stjórnvöld skoði þessa bókun út frá sínum fyrri ákvörðunum, meðal annars um lögfestingu.“ Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
„Við vonum að íslensk stjórnvöld skoði þessa bókun út frá sínum fyrri ákvörðunum, meðal annars um lögfestingu.“ Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
Norsk stjórnvöld ætla ekki að undirrita valkvæða bókun við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, SÞ, sem veitir börnum heimild til að leita réttar síns hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Í frétt Aftenposten segir að valkvæðu bókuninni hafi verið bætt við sáttmálann árið 2011. Alls hafa 29 lönd undirritað bókunina, þar á meðal Danmörk, Þýskaland, Spánn, Írland og Finnland, að því er Aftenposten greinir frá.

Haft er eftir ráðgjafa hjá UNICEF í Noregi að ákvörðun norskra stjórnvalda sé mikil vonbrigði. Undirritunin hefði verið liður í auknu réttaröryggi barna í Noregi. Óskiljanlegt sé að stjórnvöld sjái ekki til þess að norsk börn hafi sama rétt til að leita réttar síns og börn í Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi.

Í tilkynningu norskra stjórnvalda segir að mannréttinda sé vel gætt í Noregi. Í tilkynningunni segir meðal annars að hætta sé á að barnaréttarnefnd SÞ taki síður en norskir dómstólar mið af öðrum samfélagslegum sjónarmiðum þegar taka eigi tillit til þess sem barninu er fyrir bestu.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir að undirritun bókunarinnar hér yrði réttarbót fyrir íslensk börn. „Við vonum að íslensk stjórnvöld skoði þessa bókun út frá sínum fyrri ákvörðunum, meðal annars um lögfestingu.“

Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd 1992. Hann var lögfestur 2013. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×