Viðskipti innlent

Norðurál í Helguvík tapar milljarði á ári

Sæunn Gísladóttir skrifar
Enn er óljóst hvenær af framkvæmdum Norðuráls í Helguvík verður.
Enn er óljóst hvenær af framkvæmdum Norðuráls í Helguvík verður. Vísir/GVA
Norðurál í Helguvík tapaði 8,2 milljónum dollara, eða sem nemur milljarði íslenskra króna, á síðasta ári. Tapið hækkaði eilítið milli ára. Eignir félagsins nema 149 milljónum dollara og hafa einnig lækkað milli ára. Megnið af útgjöldum Norðuráls í Helguvík eru vaxtagreiðslur til tengdra aðila, sem námu 6,9 milljónum dollara. Engir starfsmenn voru á launskrá árið 2014.

Enn er óljóst hvenær af framkvæmdum Norðuráls í Helguvík verður. Í júlí greindi Vísir frá áframhaldandi ágreiningi HS Orku við Norðurál um orkusölusamning vegna álvers í Helguvík.

Hagnaður á Grundartanga þrefaldaðist

Álver Norðuráls á Grundartanga hagnaðist hins vegar um 82,7 milljón dollara á síðasta ári, eða um 10,7 milljarða króna. Hagnaðurinn þrefaldaðist milli ára, en hann nam 3,2 milljörðum króna árið áður. Greiddur var út arður til móðurfélagsins Norðuráls, að virði 40 milljónir dollara, eða sem nemur tæpum 5,2 milljörðum króna. Tekjur álversins námu 565 milljónum dollara, eða 73 milljörðum króna. Þær hækkuðu töluvert á milli ára, en numu árið 2013 432 milljónum króna.

Samkvæmt ársreikningi Norðuráls Grundartanga ehf hækkaði launakostnaður um 3 milljónir dollara milli ára, eða sem nemur tæpum 400 milljónum íslenskra króna. Eignir álversins í árslok 2014 voru metnar á 706 milljónir dala, 91 milljarð króna, en skuldir námu 315 milljónum dala.

Móðurfélag álveranna, Norðurál ehf., sem einnig rekur álverið í Helguvík, var rekið með 8,5 milljóna dala hagnaði í fyrra, jafnvirði 1,1 milljarðs króna. Eignir félagsins nema 750 milljónum dollara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×