Innlent

Norðlingaalda út af borðinu - grænt ljós gefið á virkjanir í Þjórsá

Urriðafoss. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru settar í svokallaðan orkunýtingarflokk.
Urriðafoss. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru settar í svokallaðan orkunýtingarflokk.
Ekkert verður af Norðlingaölduveitu en virkja má í neðri hluta Þjórsár, verði drög að þingsályktunartillögu rammaáætlunar samþykkt á Alþingi. Alls eru tuttugu svæði vernduð samkvæmt tillögunni en tuttugu og tvö má nýta til orkuöflunar.

Drög að þingsályktunartillögunni voru kynnt í dag af þeim Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma eru landssvæði þar sem er að finna virkjunarkosti metin eftir því hvort þá megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Í tillögunni eru svæðin því flokkuð í þrjá flokka, nýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk. Flokkunin byggir á skýrslu verkefnastjórnar sem skipuð var af iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra í ágúst 2007.

Sextíu og níu virkjunarkostir eru teknir til skoðunar í tillögunni og falla tuttugu og tveir kostir í orkunýtingarflokk. Þar ber hæst að fallist er á þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Tuttugu og sjö svæði falla í svokallaðan biðflokk en tuttugu svæði eru sett í verndarflokk samkvæmt tillögunni. Þjórsárver verða vernduð því Norðlingaölduveita fellur í þennan flokk. Sama er að segja um Gjástykki. Í rökstuðningi fyrir því að ekki skuli farið í Norðlingaölduveitu segir að hún myndi fela í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Gjástykki er hinsvegar hluti af eldstöðvarkerfi Kröflu sem hefur verndargildi á heimsmælikvarða. Í ljósi þess þykir rétt að vernda svæðið.

Nú þegar tillagan hefur verið gerð gerð opinber gefst fólki tólf vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna áður en hún verður lögð fram á Alþingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×