Innlent

Norðlendingar sennilega rafmagnslausir í tvo daga

GRV skrifar
Búast má við því að íbúar á norðausturlandi þurfi að búa við rafmagnsleysi í tvo daga til viðbótar á sumum svæðum. Örlygur Jónasson framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs RARIK segir að allur tiltækur mannskapur sé nú við viðgerðir eftir að miklar skemmdir urðu á raflínum á Norðausturlandi í gær. Verið er að vinna við línur í Skagafirði, Bárðardal, Laxárdal og í Mývatnssveit. Þungfært er enn í Mývatnssveit og því erfitt um vik fyrir viðgerðarmenn. Ljóst er að um áttatíu staurar hafa brotnað í óveðrinu.

Örlygur segir að verið sé að auka við færanlegt varaafl á Norðausturhorninu. Þrjár díselrafstöðvar voru til taks og verið er að fá tvæ lánaðar til viðbótar. Örlygur segist eiga von á því að það taki allan daginn í dag og á morgun og jafnvel lengur að koma lagi á kerfið. Það stýrist einnig af veðrinu en rokið er enn ekki gengið niður að fullu í Mývatnssveitinni. Hann segir að allt að fjörutíu manns taki þátt í viðgerðunum.

Guðmundur Ingi Ásmundsson aðstoðarforstjóri Landsnets segir að þrjár línur séu nú bilaðar í flutningskerfi fyrirtækisins. Verst er ástandið á Kópaskerslínunni en þar er nú beint straumleysi af völdum bilunarinnar. Guðmundur segir að ofuráhersla sé á að laga hana og býst hann við því að það taki tvo til þrjá daga að gera við hana. Þá eru einnig skemmdir á Kröflulínu 1 og á Laxárlínu eitt.

Guðmundur segir að flestir á svæðinu muni að minnsta kosti fá eitthvað rafmagn frá varaaflstöðvum en búast má við því að skammtanir verði á svæðinu út frá Kópaskerslínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×