Innlent

Nóg um að vera hjá Landsbjörg í dag

MYND/HAG
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið að störfum á fjórum stöðum á landsbygðinni í dag.

Engin útköll voru hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu í dag en tveir hópar frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, hafa verið til aðstoðar vegfarendum í ófærðinni í dag.

Í bænum er nú allt á kafi í snjó, meira en sést hefur undanfarin ár og enn bætir í. Sveitin hefur lokið línuvinnu með Landsneti í dag en snjóbíll hennar er nú að aðstoða starfsmenn RARIK að komast yfir Víkurskarðið.

Tveir frá Björgunarsveitinni Héraði voru í dag við almenna ófærðaraðstoð — draga upp bíla, aka heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu og koma matarbökkum til eldri borgara. Snjóbíll sveitarinnar var nýttur til að koma heyi til hrossa við Finnstaðaholt. Þaðan fór hann í aðstoð við Landsnet en gæta þarf að ísingu á rafmagnslínum þegar snjókoma og slydda er til skiptis.

Báðar þessar sveitir hafa auk þess verið með í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi að þeirra yrði þörf í sjúkraflutninga.

Þá hefur veður sett í strik í reikning hjá mörgum björgunarsveitum þar sem helgina fer fram sala á Neyðarkalli. Sölunni átti að ljúka í dag en sökum aðstæðna verður henni haldið áfram á morgun.

Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir söluna engu að síður hafa gengið vel og augljóst sé að almenningur kunni að meta störf björgunarsveitanna.

Þá er landsmönnum þakkaðu sá víðtæki stuðningur sem Slysavarnafélaginu Landsbjörg og einingum þess hefur verið sýndu undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×