Innlent

Neitað um lyf vegna vanskila við sjúkratryggingar Íslands

maria@stod2.is skrifar
Maður sem hugðist sækja lyf sín í apótek fór þaðan tómhentur vegna vanskila við sjúkratryggingar Íslands. Honum var gert að greiða skuld sína eða fullt verð fyrir lyfin en slíka fjárhæð hafði hann ekki á sér. 

Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum tók gildi 4. maí á síðasta ári í samræmi við breytingar á lögum. Greiðsluþátttökukerfið byggir á þrepaskiptri greiðsluþátttöku þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst innan tólf mánaða tímabils.

Sjúkratryggingar Íslands bjóða greiðsludreifingu á lyfjum í þessum fyrstu þrepum í allt að ár, til að létta undir með sjúklingum í greiðsluerfiðleikum.

Maður sem hafði samband við fréttastofu hafði sökum greiðsluerfiðleika ekki staðið í skilum á greiðsludreifingunni. Hann skuldaði einn mánuð en hugðist þó sækja lyf sem eru honum nauðsynleg í nærliggjandi apótek. Þegar honum var neitað um að fá lyfin sín, nema að greiða fyrir þau fullt verð ellegar gera upp skuldina, þurfti hann frá að hverfa tómhentur þar sem hann hafði ekki svo mikið fé til umráða.

Maðurinn lýsti yfir mikilli undrun með þetta fyrirkomulag og sagði starfsfólk apóteksins jafnframt hafa verið miður sín vegna málsins.

Þeir lyfjafræðingar sem fréttastofa ræddi við í dag segja það afar óheppilegt að þeir séu farnir að sinna innheimtuhlutverki fyrir Sjúkratryggingar Íslands og þá jafnvel á skuldum sem stofnað var til í öðrum apótekum.

Fréttastofa hafði einnig samband við Sjúkratryggingar Íslands en þaðan fengust þau svör að aðeins væri unnið eftir vinnureglum sem skipaðar hafi verið af hendi Velferðarráðuneytisins.

Þá væri fyllilega eðlilegt að gera þær kröfur til fólks að standa við gerða samninga. Þau vildu ekki tjá sig frekar um málið og bentu á ráðuneytið. Fréttastofa náði ekki í viðeigandi aðila þar í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×