„Það er auðvitað dapurt en einstaklingurinn verður bara að lifa með því að geta ekki fengið blóðrannsókn bara vegna þess að hann grunar að sér hafi verið byrlað eitthvað. Það þurfa að vera ákveðnar forsendur fyrir slíkum blóðmælingum á kostnað löggæslunnar.“
Neyðarmóttakan tekur hins vegar blóð til rannsóknar úr einstaklingi, sem telur að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf, hafi málið verið kært til lögreglunnar. „Það er mat lögreglunnar hverju sinni og þá yrði farið í þessa dýru og miklu rannsókn.“
Eyrún segir að þó að einstaklingur hafi aldrei upplifað ástand sem hann er í merki það ekki endilega að um byrlun sé að ræða. Fólk geti til dæmis verið í annarlegu ástandi vegna drykkju.

Í vikunni leituðu tvær konur til Stígamóta vegna þess að þær töldu að þeim hefði verið byrlað nauðgunarlyf. Þær greindu frá því að þegar leitað hafi verið eftir blóðrannsókn hafi þau svör fengist frá lögreglu og spítalanum að ekkert væri hægt að gera.
„Kærasti annarrar leitaði eftir því að sjúkrabíll kæmi á staðinn en fékk þau svör að hann ætti bara að reyna að fá hana til að æla. Það er auðvitað mjög alvarlegt. Hvað ef hún hefði fengið heilablóðfall?“ spyr Anna og bætir við að í hinu tilfellinu hafi konan sjálf haft samband við Landspítalann sem tjáði henni að fyrst nauðgun hefði ekki átt sér stað þá gæti spítalinn ekkert gert.
Byrlun nauðgunarlyfs hefur aldrei verið staðfest á Íslandi. „Það er væntanlega af því að málið er ekkert rannsakað, hvorki af hálfu lögreglu né spítala. Það er líka erfitt að sanna að byrlun hafi átt sér stað því lyfin eru fljót að fara úr líkamanum. Það verður þó að gera eitthvað í málunum því þetta er klár tilraun til nauðgunar þó gerandanum takist ekki ætlunarverk sitt og þetta varðar við lög,“ segir Anna og bætir við að úrræðaleysið sé aðalvandamálið.
Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki geta tekið afstöðu til svara sjúkrahússins um að blóðrannsóknir séu of kostnaðarsamar og því ekki framkvæmdar í umræddum tilfellum.
„Ef einstaklingur hefur rökstuddar grunsemdir um að öðrum hafi verið byrluð ólyfjan þá myndum við mæla með því að einstaklingurinn óskaði eftir því að blóðsýni yrði tekið á spítalanum,“ segir Árni Þór og bætir við að fátítt sé að svona mál komi til kasta lögreglunnar án þess að grunur sé um önnur brot samhliða. „Við erum þó sífellt að taka verklag okkar til endurskoðunar í samræmi við fjölda tilvika og það er eitthvað sem við munum gera núna.“