Innlent

Náum ekki til erlendra ungmenna

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Unglingar af erlendu bergi brotnir eru líklegri til að neyta vímuefna og meiri líkur eru á að þeir detti úr skóla.
Unglingar af erlendu bergi brotnir eru líklegri til að neyta vímuefna og meiri líkur eru á að þeir detti úr skóla. vísir/daníel
Samfélagsmál „Þessar niðurstöður sýna að þau eiga í ákveðnum erfiðleikum með að fóta sig í íslensku samfélagi og ég spyr hvort við séum að ná til þeirra með viðunandi hætti,“ segir Rúnar Helgi Haraldsson, forstöðumaður Fjölmenningarseturs.

Fréttablaðið greindi í gær frá niðurstöðum Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar, sem Háskólinn á Akureyri annast, þar sem fram kemur að unglingar foreldra af erlendum uppruna eru líklegri til að hafa neytt tóbaks, áfengis og kannabisefna en unglingar foreldra af íslenskum uppruna. Enn fremur eru unglingar erlendra foreldra líklegri til að vanmeta skaðsemi vímuefna.

Rúnar segir þessar niðurstöður áhyggjuefni. „Erum við að gefa út til dæmis forvarnarbæklinga og aðrar upplýsingar á erlendum tungumálum? Erum við að ná inn í þessa jafningjahópa?“

Rúnar Helgi Haraldsson
Hann segir að niðurstöðurnar endurspegli rannsóknir Fjölmenningarseturs þar sem fram kemur að ungmennum vegnar einnig illa í framhaldsskólakerfinu. 

„Við hjá Fjölmenningasetri gáfum út tölfræðiskýrslu síðastliðinn vetur þar sem verið er að kanna hvernig nemendur með erlent ríkisfang standa sig í framhaldsskólakerfinu. Og þetta tengist kannski óbeint rannsókninni frá Háskólanum á Akureyri.“

Í rannsókn Fjölmenningarseturs má meðal annars sjá að af þeim 358 sem innrituðust í framhaldsskóla árið 2009 útskrifuðust einungis 49 eftir fjögur ár og þrettán eftir sex ár. 

„Ég veit að námsráðgjafar, kennarar og stjórnendur inni í skólakerfinu eru að gera sitt besta til að tryggja hag þessara krakka en eitthvað veldur því að þeir falla í glufurnar. Við verðum að halda betur utan um þessa krakka frá upphafi til enda innan skólakerfisins.“ 

Rúnar segir rannsóknirnar tvær varpa upp mynd af slakri stöðu erlendra ungmenna. 

„Þetta sýnir mjög alvarlega stöðu ungmenna með erlent ríkisfang inni í framhaldsskólakerfinu og við verðum að passa okkur að skapa ekki með þessu svona pólaríserað samfélag og fólk af erlendum uppruna standi ekki hallandi fæti í menntakerfinu og á atvinnumarkaði. Þetta er spurning um að skoða allan pakkann og halda betur utan um þennan hóp frá upphafi til enda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×