Innlent

Nær öllum leikskóladeildum lokað

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Nær öll leikskólabörn á landinu sitja heima 19. júní ef ekki takast samningar í kjaradeilu leikskólakennara og sveitarfélganna.
Nær öll leikskólabörn á landinu sitja heima 19. júní ef ekki takast samningar í kjaradeilu leikskólakennara og sveitarfélganna. Fréttablaðið/Vilhelm
„Samkvæmt þeim tölum sem ég hef tekið saman verða rúmlega 90 prósent allra leikskóladeilda á öllu landinu lokaðar 19. júní, hafi samningar ekki tekist við leikskólakennara fyrir þann tíma,“ segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda á leikskólum.

Ingibjörg segist hafa fengið svör frá stjórnendum 517 leikskóladeilda og af þeim verði 480 lokað eða 93 prósentum. Margar þeirra deilda sem verða opnar eru í litlum leikskólum á landsbyggðinni en þó eru dæmi um deildir á höfuðborgarsvæðinu sem verða opnar.

„Þó að deildirnar verði opnar, vegna þess að forstöðumaður þeirra er ekki í Félagi leikskólakennara, verður boðið upp á skerta starfsemi. Leikskólakennarar koma að starfsemi langflestra deilda með einum eða öðrum hætti. Til dæmis koma þeir inn á deildirnar og sinna sérstökum verkefnum,“ segir Ingibjörg.

Samninganefndir Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga hittust á fundi í gær. „Það færðist heldur nær en fjær,“ sagði Haraldur F. Gíslason, formaður FL.

Hann segir að enn beri mikið í milli í deilunni. Leikskólakennarar vilja sömu launahækkanir og grunn- og framhaldsskólakennarar sömdu um, eða allt að 30 prósenta hækkun launa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×