Innlent

Náði tökum á íslensku með lestri minningargreina

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Einn þeirra rúmlega átján hundruð kandídata sem tóku við brautskráningarskírteini sínu frá Háskóla Íslands í Laugardalshöll í dag var hin finnska Satu Rämö. Hún útskrifaðist með BA-próf í íslensku sem annað mál.

Lokaverkefnið sitt vann hún um minningagreinar í Morgunblaðinu en þær vöktu forvitni hennar þegar hún fluttist til landsins fyrir um fimm árum.

„Í Finnlandi þá er bara skrifað um fólkið sem var mjög þekkt eða svona pólitískt fólk eða rithöfunda eða um fólk sem allir þekkja en ekki um svona venjulegt fólk eins og hér. Mér finnst það var svo fallegt“, segir Satu.

Satu lagðist í töluverða rannsóknarvinnu og las fjölda minningargreina. Þannig las hún 550 minningagreinar á meðan að hún vann verkefnið. Það tók hana nokkuð langan tíma en Satu segir þær hafa verið áhugaverðar. Þá hafi sumar greinarnar kallað fram tár.

Satu er með mörg járn í eldinum. Þegar hún bjó í Finnlandi starfaði hún sem blaðamaður. Í dag rekur meðal annars verslun í miðbænum með finnskar vörur og vinnur að þýðingum og skrifar bækur.

Hún segir lestur minningagreinanna hafa hjálpað sér við að ná tökum á íslenskunni. Henni finnist að nú eftir þriggja ára háskóla nám geti hún talað um næstum hvað sem er á íslensku þó íslenskan sé ekki alltaf fullkomin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×