Lífið

Náði Bieber fyrir utan klósettið á Olísstöðinni á Selfossi

Jakob Bjarnar skrifar
Atli Már og Justin Bieber, en Atli náði bráð sinni fyrir utan klósettið á Olísstöðinni á Selfossi: Justin Bieber afskaplega rólegur og hlédrægur drengur.
Atli Már og Justin Bieber, en Atli náði bráð sinni fyrir utan klósettið á Olísstöðinni á Selfossi: Justin Bieber afskaplega rólegur og hlédrægur drengur. Þormar Vignir
Justin Bieber afskaplega rólegur og hlédrægur drengur. „Alla veganna var hann þannig þegar hann talaði við mig,“ segir Atli Már Gylfason blaðamaður DV, í einkaviðtali við Vísi um einkaviðtal sem hann tók við Justin Bieber, sem staddur er hér á landi eins og þeir sem fylgjast með vita. Vísir veitir hér einstæða innsýn í líf íslenska slúður- og æsifréttamannsins.

Og það kemur á óvart þetta sem Atli Már segir næst: „Hann var á þeim nótunum að hann vildi helst ekkert að heimurinn vissi að hann væri á Íslandi.“

Ha? Samt veitti hann viðtal?

„Klárlega. Hann var tilbúinn að spjalla við mig.“

Hinn íslenski papparazzi

Atli Már Gylfason blaðamaður á DV skilgreinir sjálfan sig sem tabloidblaðamann og papparazzi. Íslendingar hafa sýnt sig í að vera í nöp við slíka blaðamennsku og oft hafa risið upp hrein og klár mótmæli vegna frétta af frægum á ferð á Íslandi. „Látið þau í friði!“ En, Atli Már gefur lítið fyrir þetta viðhorf, að Íslendingum sé illa við þetta. Helst að hann telji þetta fremur svona hræsnisfulla afstöðu: „Jájá, en það vilja allir sjá myndina. Justin Bieber á Íslandi. Fréttin er hálfsögð nema með fylgi mynd.“

Atli Már er af Suðurnesjum, hefur verið búsettur í nálægð við Leifsstöð og hefur hann oft komist í tæri við frægt fólk sem þar hefur lent. „Ég var nú reyndar staddur á skrifstofunni í Reykjavík þegar ég fékk þetta mission. Og elti bílalest en þeir voru á tveimur stórum svörtum Merzedes Bens, hópbifreiðum.

Náði honum fyrir utan klósettið

Það var svo á Selfossi þar sem Atli Már náði að hremma bráð sína. „Já, ég hitti hann þar og ræddi við hann. Við ætlum að birta hluta úr spjalli okkar á vefnum í kvöld og svo viðtal í blaðinu á morgun. En, ég sem sagt, rakst á hann á Selfossi. Elti hann á Olísstöðina þar sem hann stökk inn til að fara á salernið.“

Og greipstu hann glóðvolgan fyrir framan klósettið?

„Já, eða neinei, ég fór rólegur út úr bílnum og fékk mér sígarettu fyrir utan. Og beið eftir því að hann kæmi út og spjallaði þá við hann. Stelpurnar sem voru í afgreiðslunni á Olís voru að reyna að reyna að átta sig á því að Justin bieber stæði þarna fyrir framan þær. Gaman að fylgjast með svipnum á þeim þegar hann labbaði fyrir framan þær og inn á klósett. Þær hafa seint búist við því.“

Varð ekkert „starstruck“

Atli Már er vanur því að hitta á fræga menn. Hvað var það sem kom honum helst á óvart? Atla vefst tunga um tönn.

„Ég, átta mig ekki á því. Ætli það sé ekki bara þetta að ég furða mig mest á sjálfum mér að hafa ekki orðið meira starstruck. ég var ekki nógu starströkk það kom mér einna helst á óvart. Því það var ung stúlka með mér í för sem fékk að taka mynd af sér með Justin Bieber og það var í raun eins og það væri það eina sem hún vildi gera í þessu lífi. Sko, það eru fleiri þarna úti fyrir mitt leyti sem eru merkilegri en hann er án efa eins stærsta poppstjarnan í heiminum, það er ekkert hægt að orða það öðru vísi.“

Var með illilega lífverði

Atli Már segir að hópurinn hafi talið um 12 manns. Og allir að eltast við Bieber?

„Já, en, ég næ þeim alltaf. Lítið breyst.“

Myndi þetta teljast sá frægasti sem þú hefur hitt?

„Já, hann og Clint Eastwood. Þeir voru líka þeir einu sem létu lífverðina ekki ráðast á mig. Hann lét ekki einhverja rugby-útlítandi gaura ráðast á mig, hann lét það alveg eiga sig. Jájá, hann var með lífverði með sér.“

Atli Már hefur, sem slúðurfréttamaður og papparazzi, lent í ýmsum hremmingum í gegnum tíðina, í viðskiptum sínum við hinar alþjóðlegu stjörnur. Þannig réðst tónlistarkonan Pink á Atla Má þegar hann sat fyrir henni í Bláa lóninu og þá komst hann í kast við lífverði Lou Reed sem þótti hann helst til nærgöngull.


Tengdar fréttir

„Látið þau í friði!“

Fjöldi fólks biðlar til fjölmiðla og ljósmyndara að láta hjónin Beyoncé og Jay Z í friði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×