Erlent

Munu virða tveggja daga vopnahlé í Sýrlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Aleppo.
Frá Aleppo. Vísir/Getty
Sýrlenski stjórnarherinn mun virða tveggja daga vopnahlé í borginni Aleppo. Íbúar borgarinnar hafa mátt þola mikla orrahríð að undanförnu eftir harða sókn stjórnarhersins að borginni sem er sú nærst stærsta í Sýrlandi.

„Vopnahléið mun gilda í 48 tíma frá klukkan 01.00 að staðartíma á fimmtudag,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnarhernum samkvæmt fregnum frá ríkismiðlum í Sýrlandi. Bandaríkjamenn og Rússar samþykktu í dag að þrýsta á stríðsaðila í Sýrlandi um að virða vopnahlé í Aleppo þar sem 280 almennir borgarar hafa látist frá 22. apríl.

Bandaríkin og Rússland höfðu áður samþykkt að framfylgja vopnahléi á milli stjórnarhersins og stjórnarandstæðinga í Latakia og Austur-Ghouta í Sýrlandi. Aleppo, ein af mikilvægustu borgum Sýrlands, var þó undanskilin vopnahléinu þar til nú og höfðu harðir bardagar geysað undanfarnar vikur í og við nágrenni borgarinnar.

Öryggisráðið krafðist þess í gær sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir á stríðsvæðum yrðu ekki fyrir barðinu á árásum en ekki er vika liðin frá því að loftárásir voru gerðar á sjúkrahús í Aleppo í Sýrlandi þar sem minnst 50 létust.

Standa vonir Bandaríkjamanna og Rússa til þess að vopnahléið leiði til friðarviðræðna á milli stríðsaðila í Sýrlandi. Friðarumleitanir hafa þó hingað til skilað litlum sem engum árangri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×