Innlent

Mótorkrosshjóli stolið af níu ára dreng: Faðirinn svelti sig til að eiga fyrir hjólinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi Magnús Smárason og Smári Magnússon.
Helgi Magnús Smárason og Smári Magnússon. visir/pjetur
„Hann sá fyrsta mótorhjólið þegar hann var þriggja ára gamall og sagði þá við mig að þetta væri eitthvað sem hann vildi eignast. Síðan þá hefur hann verið að safna fyrir hjóli,“ segir Smári Magnússon, faðir Helga Magnúsar Smárasonar. Þeir feðgar lentu í þeirri leiðinlegu lífsreynslu að mótorkrosshjóli drengsins var stolið úr bifreið þeirra um helgina.

Hjólinu var stolið fyrir utan Snóker og Poolstofuna í Lágmúla á laugardaginn milli klukkan fjögur og sex. Hjólið er af tegundinni Beta R12. Slíkt hjól kostar nýtt 500.000 þúsund en Smári keypti hjólið notað á 150.000 krónur. Það tók hann marga mánuði að finna slíkt hjól því þau eru mjög sjaldgæf.

„Ég veit að fyrirtækin þarna í kring eru með eftirlitsmyndavélar og það hefur örugglega einhver orðið vitni að þessu. Lögreglan er auðvitað bundin í báða skó og getur ekki sinnt þessu þar sem þetta telst kannski lítið mál, en fyrir okkur er þetta stórmál. Við erum að tala um níu ára dreng.“

Hér má sjá Sindra Smárason, yngri bróður Helga. Fyrirhugað var að Sindri myndi fá hjólið þegar sá eldri væri orðinn of stór fyrir það. Sindri er fimm ára.
Smári segir að hann og fyrrverandi eiginkona hans hafi gengið í gegnum skilnað í sumar og hann hafi þá ákveðið að láta drauminn rætast fyrir drenginn og fjárfest í sérstöku mótorkrosshjóli sem ætlað er fyrir börn. 

„Þetta var í raun gert gegn öllum skynsemishugsunum þar sem ég er öryrki og á ekki bót fyrir boruna mína frekar en aðrir öryrkjar,“ segir Smári sem lagði allt í sölurnar til þess að drengurinn gæti fengið hjólið. 

„Ég svelti mig í raun og veru í nokkra daga til þess að eiga fyrir hjólinu og ég er ekki enn búinn að greiða fyrir það til fulls. Ég hafði bara eitt markmið og það var að láta drauminn rætast fyrir strákinn minn. Þetta voru erfiðir tímar fyrir fjölskylduna og því fannst mér hann eiga þetta skilið. Núna er Helgi að æfa og keppa í þessu sporti og stendur sig alveg rosalega vel.“

Smári segir að drengurinn hafi staðið sig sérstaklega vel í sinni fyrstu keppni og hafnaði hann þá í þriðja sæti. Í næstu keppni stóð hann uppi sem sigurvegari.

„Þetta skiptir hann alveg ofboðslega miklu máli. Drengurinn minn hefur ekki getað mætt í skólann í vikunni og ég hef í raun aldrei séð barnið mitt kveljast eins mikið. Hann einfaldlega hrundi í gólfið fyrir framan mig og gat ekki andað þegar ég tilkynnti honum hvað hafði gerst.“

Þjófurinn braust inn í bifreið Smára og fjarlægði hjólið en gera má ráð fyrir því að þetta hafi verið þó nokkur aðgerð þar sem hjólið vegur rúm fimmtíu kíló. 

„Aðilinn hefur þurft að hafa virkilega fyrir því að ná hjólinu út úr bílnum. Ég er búinn að leggja fram kæru til lögreglunnar en það er auðvitað bara bunki á borðinu hjá þeim. Ég veit auðvitað að lögreglan mun reyna eftir bestu getu en það klikkaði samt sem áður að setja málið inn í kerfið strax og var málið ekki komið í ferli fyrr en tveimur dögum síðar.“

Hér má sjá hjól af tegundinni Beta R12.
Smári segir að lögreglan hafi ekki enn haft tíma til að skoða eftirlitsmyndavélar í Lágmúlanum.

„Ég vil því biðla til fyrirtækja í kring um að skoða eftirlitsmyndavélar sínar til að athuga hvort þjófurinn hafi náðst á myndband.“

Helgi æfir á mótorkrossbrautinni í Bolöldu við Litlu-kaffistofuna.

„Þetta hjól er eingöngu ætlað til þess að nota í sérstökum mótorkrossbrautum og hann æfir þar með tveimur frábærum þjálfurum. Núna æfir hann tvisvar í viku og síðan áttu inniæfingar að hefjast í vetur sem hann hafði hlakkað mikið til,“ segir Smári en eðli málsins samkvæmt hefur Helgi ekkert getað æft frá því að hjólinu var stolið. 

„Það eru það fá hjól af þessari tegund á landinu að þetta mun þekkjast um leið. Hjólið hefur ákveðið einkennisnúmer sem er einfaldlega tölustafurinn einn. Sem er kannski mjög lýsandi fyrir strákinn minn, því hann stefnir að því að verða númer eitt.“

Lesendur sem kunna að hafa upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×