Erlent

Mótmælendur hóta hertum aðgerðum

Freyr Bjarnason skrifar
Einn þeirra sem hafa krafist lýðræðisumbóta í Hong Kong hrópar slagorð yfir hóp mótmælenda á götu skammt frá höfuðstöðvum stjórnvalda í Hong Kong.
Einn þeirra sem hafa krafist lýðræðisumbóta í Hong Kong hrópar slagorð yfir hóp mótmælenda á götu skammt frá höfuðstöðvum stjórnvalda í Hong Kong. Fréttablaðið/AP
Leiðtogar mótmælenda í Hong Kong vöruðu við því að ef æðsti yfirmaður Hong Kong segði ekki af sér í gær myndu þeir fjölga mótmælaaðgerðum sínum, þar á meðal leggja undir sig þó nokkrar mikilvægar byggingar stjórnvalda.

Þar með eiga mótmælendur á hættu að lenda í átökum við lögreglu því ólíklegt er að hún leyfi þeim að leggja undir sig byggingarnar án fyrirhafnar.

Með yfirlýsingu sinni hafa mótmælendur einnig sett þrýsting á kínversk stjórnvöld. Þau hafa hingað til sagt mótmælaaðgerðirnar vera ólöglegar og stutt tilraunir Leung Chun-ying, framkvæmdastjóra Hong Kong, til að binda enda á þær. Hann var viðstaddur athöfn þar sem fáni var dreginn að húni í tilefni þjóðhátíðardags Kínverja í gær. Fyrir athöfnina hrópuðu nokkur hundruð mótmælendur á Chun-ying og kröfðust þess að hann segði af sér embætti. Þegar athöfnin hófst sneru þeir baki við því sem fram fór.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur hingað til verið harður í afstöðu sinni gegn öllum þeim sem ógna veldi kommúnistaflokksins. Í þjóðhátíðarræðu sinni hét hann því að tryggja hagsæld og stöðugleika í Hong Kong.

Aukinn fjöldi fólks tók þátt í mótmælunum í gær, enda var um frídag að ræða. Talið er að tugur þúsunda hafi verið á götum úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×