Innlent

Mörg börn með ADHD í sambærilegum vanda og Ingibjörg Melkorka

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sérfræðingur í málefnum barna með ADHD segir að fjöldi barna með greininguna lendi í áhættuhópi gagnvart áhættuhegðun og fíkniefnaneyslu. Aukið fjármagn þarf í málaflokkinn þar sem eru viðvarandi biðlistar, en það getur tekið allt að þrrjú ár að fá ADHD greiningu hjá Þroska-og hegðunarstöð Heilsugsæslunnar.

Stöð 2 fjallaði á mánudag um Ingibjörgu Melkorku Ásgeirsdóttur, sautján ára stúlku sem lést eftir að hafa tekið inn eina og hálfa E-töflu. Ingibjörg var greind með athyglisbrest og ofvirkni auk þess að glíma við andleg veikindi. Hún var alla tíð utanveltu í skóla og fann sig illa í kerfinu.

„Það eru mjög mörg börn með ADHD sem eru í sambærilegum vanda og lýst var hjá henni. Þeim er hættara við að lenda í vanda í skóla, einelti, áhættuhegðun og prófa ýmiskonar hluti,“ segir Gyða Haraldsdóttir forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar. 

Gyða segir að rannsóknir sýni fram á að börn með ADHD séu líklegri til að fá kvíða, þunglyndi og önnur andleg veikindi. Þá fylga röskuninni oft hegðunarvandamál og samskiptavandi.

Erum við sem samfélag að standa okkur nógu vel í að halda utan um þessi börn?

„Nei, því miður erum við alls ekki að standa okkur nógu vel. Eflaust getur skólinn víða gert betur. Reyndar ekki bara skólinn heldur kerfið í heild. Staðan er sú á Íslandi núna að börn sem að hafa vísbendingar um ADHD og ýmsar aðrar skyldar raskanir þurfa að bíða mjög lengi eftir að fá greiningu á sínum vanda. Það þýðir að þau eru oft ekki að fá aðstoð eða meðferð við hæfi á meðan þau eru að bíða,“ segir Gyða.

Yfir fjögur hundruð börn bíða nú greiningar hjá Þroska - og hegðunarstöðinni. Biðtíminn eftir ADHD greiningu getur verið allt að þrjú ár, að meðtalinni bið eftir frumgreiningu. 3-24 mánuði getur tekið að fá frumgreiningu og 7-14 mánuði að fá nánari greiningu á ADHD og skyldum röskunum á ÞHS.

„Þetta er mikið áhyggjuefni og bæði foreldrar og tilvísendur eru að hafa samband á biðtíma og óska eftir forgangi, og lýsa því að erfiðleikarnir hafi undið upp á sig. Oft á tíðum er bara verið að lýsa verulega alvarlegri stöðu,“ segir Gyða Haraldsdóttir.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×