Enski boltinn

Morata: Chelsea ætlaði að gera mig að dýrasta spænska leikmanni allra tíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Morata hefur skorað tvö mörk síðan hann sneri aftur til Real Madrid.
Morata hefur skorað tvö mörk síðan hann sneri aftur til Real Madrid. vísir/getty
Álvaro Morata, framherji Real Madrid, segir að Chelsea hafi gert risatilboð í sig í sumar.

Real Madrid keypti Morata til baka frá Juventus í sumar fyrir 34 milljónir punda en hann var í tvö ár hjá ítalska stórliðinu. Morata segir að Chelsea hafi einnig borið víurnar í hann.

„Chelsea sýndi mér mestan áhuga. Antonio Conte hafði áður keypt mig til Juventus,“ sagði hinn 23 ára gamli Morata sem skoraði þrjú mörk fyrir Spánverja á EM í Frakklandi í sumar.

„Þetta var mjög gott tilboð. Ég hefði orðið dýrasti spænski leikmaðurinn í sögunni,“ bætti Morata við en talið er að tilboð Chelsea hafi hljóðað upp á um 60 milljónir punda.

Morata skoraði 27 mörk í 93 leikjum fyrir Juventus og varð tvisvar ítalskur meistari með liðinu. Juventus komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 2015 en Morata skoraði mark liðsins í 3-1 tapi fyrir Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×