Erlent

Misnotaðir hvolpar fá meiri samúð en manneskjur í sömu stöðu

Mannfólkið hefur meiri samúð með misnotuðum hvolpum en fulllorðnu fólki sem orðið hefur fyrir margvíslegu ofbeldi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem kynnt verður á árlegum fundi American Sociological Association í New York í vikunni.

240 nemendur við menntaskóla einn í Bandaríkjunum voru beðnir um að lesa yfir fjórar mismunandi útgáfur af tilbúnni frétt. Í fréttinni var sagt frá ljótu ofbeldi þar sem fórnarlömbin voru ýmist lítill hvolpur, sex ára gamall hundur, ungabarn eða manneskja á þrítugsaldri. Þátttakendurnir áttu svo að setja fréttirnar í rétta röð, allt eftir því hversu mikla samúð þeir höfðu með fórnarlömbunum.

Niðurstöðurnar sýndu að þátttakendurnir höfðu mun meiri samúð með misnotuðum hvolpum, hundum og börnum en með fullorðnu fólki.

Rannsakendurnir töldu fyrirfram að yngri fórnarlömb fengju meiri samúð en eldri, óháð dýrategundum. Hins vegar kom í ljós að samúðin er minni því eldri sem manneskjan verður en er alltaf jafn mikil hjá hundum, sama hvort um hvolp eða fullvaxta hund er að ræða.

"Það virðist sem fullorðið fólk sé litið þeim augum að þau eigi að geta varið sig á meðan fullvaxta hundar séu litnir sem stórir hvolpar," sagði rannsakandinn Jack Levin hjá Northeastern háskólanum í Boston í tilkynningu sinni.

Í rannsókninni kom einnig fram að konur sýni misnotuðu mannfólki og dýrum almennt mun meiri samúð en karlmenn.

Nánar er fjallað um málið á Livescience.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×