Viðskipti innlent

Minnsta atvinnuþátttaka frá upphafi mælinga Hagstofunnar

Á fjórða ársfjórðungi í fyrra voru 175.700 á vinnumarkaði sem jafngildir 78,4% atvinnuþátttöku sem er lægsta hlutfall sem Hagstofan hefur mælt frá upphafi vinnumarkaðsrannsókna árið 1991.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að frá fjórða ársfjórðungi 2008 hefur vinnuaflið minnkað um 6.700 manns, en það taldi þá 182.400 manns. Frá fjórða ársfjórðungi 2010 hefur fólki á vinnumarkaði fækkað um 3.100. Atvinnuþátttaka karla á 4. ársfjórðungi 2011 var 82,7% en kvenna 74%.

Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra (vinnuafl) af mannfjölda.

Á fjórða ársfjórðungi 2011 voru að meðaltali 10.600 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 6% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 6,4% hjá körlum og 5,6% hjá konum. Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2011 var 165.100 manns eða 73,7% af mannfjölda. Hlutfall starfandi karla var 77,4% og starfandi kvenna 69,8%.

Hvoru tveggja, atvinnulausum og starfandi, fækkaði frá fjórða ársfjórðungi 2010 til fjórða ársfjórðungs 2011. Atvinnulausum fækkaði um 2.600 og starfandi um 500. Starfandi körlum fjölgaði um 1.400 en á sama tíma fækkaði starfandi konum um 1.900.

Af þeim sem voru atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2011 voru að jafnaði 2.900 manns búnir að vera atvinnulausir í 1–2 mánuði eða 1,6% vinnuaflsins. Er það sama hlutfall og svipaður fjöldi og á fjórða ársfjórðungi 2010. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fjórða ársfjórðungi 2011 höfðu um 2.600 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 1,5% alls vinnuaflsins.

Á fjórða ársfjórðungi 2010 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 3.200 manns eða 1,8% vinnuaflsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×