Innlent

Milljarðar fyrir hausa, roð og bein

Svavar Hávarðsson skrifar
Velta fyrirtækja í fullvinnslu aukaafurða úr sjávarfangi og líftækni var um 22 milljarðar króna í fyrra. Veltan jókst um 17% frá fyrra ári.

Ef vöxtur þessara greina heldur áfram eins og verið hefur undan­farin misseri er gert ráð fyrir að velta í fullvinnslu og líftækni nálgist óðfluga verðmætasköpun í hefðbundnum sjávarútvegi dagsins í dag á næstu 15 til 20 árum, segir í nýrri greiningu Íslenska sjávarklasans (ÍS).

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri sjávarklasans, segir fullvinnslu aukaafurða í reynd vaxtar­brodd íslensks sjávarútvegs í dag. Á Íslandi séu þegar yfir þrjátíu fyrirtæki sem sérhæfa sig í líftækni eða annarri fullvinnslu aukaafurða úr hafinu. „Það kemur þægilega á óvart hvað mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru annaðhvort farin af stað eða eru í þessum hugleiðingum,“ segir Þór og bætir við að samstarf milli fyrirtækja í útgerð og hefðbundinni vinnslu sjávarafurða, og fyrirtækja í líftækni og fullvinnslu, gæti stutt við þróun nýrra og afar verðmætra aukaafurða. Slíkt samstarf stuðli að bættri nýtingu hráefna sem sé keppikefli allra í greininni.

„Þegar allt er talið gerum við ráð fyrir að fjórðungur alls afla íslenskra skipa fari forgörðum. Hægt er að þúsundfalda verðmæti hráefnisins, sem er og var hent, með lyfja- eða snyrtivöruframleiðslu, svo dæmi sé tekið,“ segir Þór.

Á annan tug líftæknifyrirtækja er nú í sjávarklasanum á Íslandi. Greining ÍS sýndi að velta þessara fyrirtækja nam rúmlega þremur milljörðum árið 2012 og jókst um 4% frá árinu 2011. Fyrirtæki sem þurrka hausa og bein, sjóða niður lifur auk þess að nýta hrogn, roð og önnur hráefni, veltu um 19 milljörðum á árinu 2012. Vöxtur þessara fyrirtækja var 19% á milli ára.

Þór segir það vissulega kostnaðarsamt, og oft tímafrekt, að þróa nýjar vörur. Hann hafnar því að það sé í ranni hins opinbera að leiða þessa þróun áfram. „Þetta verða fyrirtækin sjálf að gera. Þau verða að sjá ábata í því, og þetta á að vera hluti af góðum viðskiptaháttum að sjá tækifærin í þessu,“ segir Þór.

Lyf og lækningavörur úr ódýrasta hráefninuGríðarleg tækifæri eru í bættri nýtingu hráefna og vinnslu aukaafurða sjávarfangs. Með aukaafurðum er átt við hausa, bein, slóg, roð, klær, skel og annað hráefni sem fellur til við hefðbundna framleiðslu og verkun sjávarfangs.

Úr umræddu hráefni er hægt að framleiða verðmætar vörur, t.d. lyf og lækningavörur, snyrtivörur, bragðefni, fæðubótarefni, dýrafóður og áburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×