Innlent

Miklar sveiflur á mælingum loftgæða í Reykjavík

Öskuskýið að leggjast yfir borgina í gærkvöldi
Öskuskýið að leggjast yfir borgina í gærkvöldi Mynd Jóhanna Margrét
Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu hafa verið misjöfn síðan aska tók að berast til borgarinnar í nótt þegar þau voru há. Reikna má með að mæligildi komi til með að sveiflast áfram. Öskufallið var samt ekkert í líkingu við það sem er fyrir austan fjall og á Suðurlandi.

Mælingar hafa sýnt hátt svifryk í lofti á höfuðborgarsvæðinu á álagstíma í umferðinni og þegar vindur er sterkur og jörð þurr. Er þar að einhverju leyti á ferðinni aska sem fýkur upp.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg hefur í varúðarskyni vegna svifryks virkjað viðbragðsáætlanir sínar í samræmi við verklag sem viðhaft var í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli. Veðurstofa Íslands spáir áfram norðlægum áttum sem að öllum líkindum ná að halda ösku frá höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður er full ástæða til að tryggja viðeigandi vöktun og undirbúning í ljósi eldgossins í Grímsvötnum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum og vatnsbólum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.

Í morgun fóru fram fundir yfirstjórnar Reykjavíkurborgar og viðbragðsaðila vegna hugsanlegra áhrifa eldgossins. Fylgjast borgaryfirvöld nákvæmlega með gangi mála en vöktun á loftgæðum í Reykjavík er mjög nákvæm og áreiðanleg. Allar fréttir af breytingum verða sendar út jafnóðum á vef Reykjavíkurborgar, www.reykjavík.is svo og til fjölmiðla.

Viðbragðsteymi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar fylgist með loftgæðum í borginni allan sólarhringinn í gegnum þrjár mælistöðvar. Ennfremur fylgist eftirlitið vel með vatnsbólum en talið er ólíklegt að neysluvatn Reykvíkinga spillist jafnvel þótt aska berist yfir borgina enda er neysluvatnið fengið af allnokkru dýpi úr miklum grunnvatnsstraumum.

Tryggt verður að allar starfseiningar Reykjavíkurborgar fái ítarlegar upplýsingar í tengslum við hugsanlegt öskufall í borginni. Sérstaklega er fylgst með gangi mála í skólum og leikskólum borgarinnar. Upplýsingar um viðbrögð þeirra vegna hugsanlegs öskufalls er að finna á www.menntasvid.is og www.leikskolasvid.is.

Íbúar eru hvattir til fylgjast vel með fréttum og kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is og heimasíðu umhverfisstofnunar, www.ust.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×