Handbolti

Mikkel Hansen: Veit ekki hvort Guðmundur sé stressaður

Arnar Björnsson í Doha skrifar
Mikkel Hansen er eitt af stóru nöfnunum í handboltanum.  Hann var langt frá sínu besta í fyrsta leiknum þegar Danir gerðu jafntefli við Argentínumenn.  

Smátt og smátt hefur hann náð fyrri styrk og hefur verið ógnarsterkur í síðustu leikjum. Hann skoraði 6 mörk í sigri Dana á Pólverjum og átti fjölmargar stoðsendingar.

„Leikirnir við Íslendinga eru aldrei auðveldir.  Þeir eru með gott lið og sýndu það þegar þeir unnu okkur á æfingamótinu fyrr í þessum mánuði.   Hér mætast lið sem þekkjast vel og því verður þetta hörkuleikur“.

Þú þekkir marga leikmenn mjög vel í íslenska liðinu. „Já, og þess vegna er alltaf gaman að mæta Íslendingur.  Þetta verður athyglisverður leikur og því tilhlökkun að mæta þeim á morgun.  Það hefur verið stígandi í leikjum okkar á mótinu og vonandi spilum við enn betur gegn Íslendingum á morgun“.

Hver er lykillinn að því að slá Íslendinga út úr keppninni? „Það gildir það sama með bæði lið.  Við líkt og Íslendingar viljum spila kraftmikinn varnarleik, ná hraðaupphlaupum og spila yfirvegaðan sóknarleik“.

Er Guðmundur Guðmundsson ekki haugstressaður vegna leiksins? „Ég veit það ekki, ég hef ekki upplifað það hingað til. Hann undirbýr okkur eins og alltaf og gerir það mjög vel. Ég vona að við náum sigri á morgun og tryggjum okkur sæti í 8-liða úrslitunum.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×