Innlent

Mikill meirihluti styður áframhaldandi viðræður við ESB

Heimir Már Pétursson skrifar
Mikill meirihluti kjósenda myndi greiða atkvæði með því að aðildrviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram, yrði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að um 82 prósent landsmanna vilji að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um áframhald viðræðna við Evrópusambandið og er meirihluti fyrir því meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, þó minnstur meðal kjósenda Framsóknarflokksins, 52 prósent og 66 prósent meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö var einnig spurt hvernig fólk myndi kjósa ef slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Þar er afstaða landsmanna einnig mjög afgerandi, en þó mismunandi milli stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka.

Af þeim sem tóku afstöðu myndu rétt rúmlega 64 prósent kjósenda styðja áframhaldandi viðræður en 36 prósent eru andvíg frekari viðræðum við Evrópusambandið.

Það kemur ekki á óvart að stuðningurinn við áframhald viðræðna er minnstur meðal kjósenda stjórnarflokkanna. Einungis 25 prósent kjósenda Framsóknarflokksins myndu greiða atkvæði með áframhaldandi viðræðum og rétt rúm 39 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Hins vegar myndu 88 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar greiða atkvæði með viðræðunum, tæp 95 prósent kjósenda Samfylkingarinnar, 65 prósent kjósenda Vinstri grænna og 75 prósent kjósenda Pírata.

Hér er aðeins greint frá niðurstöðum þeirra sem taka afstöðu, en hlutfall óákveðinna er nokkuð svipað hjá kjósendum flokkanna, þó lægst 3 prósent hjá kjósendum Samfylkingarinnar og hæst 20 prósent hjá kjósendum Pírata.

Nánar verður fjallað um könnunina í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×